Seðlabanki Íslands ætti að viðhalda þröngu taumhaldi peningastefnunnar þar til skýr ummerki verða um að verðbólga muni hjaðna í 2,5% verðbólgumarkmið á ný og verðbólguvæntingar hafa aftur náð kjölfestu til samræmis við markmiðið.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í áliti sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í kjölfar úttektar á íslensku atvinnu- og efnahagslífi árið 2023.
Til að ná þessu markmiði gætu stýrivextir Seðlabanka Íslands þurft að hækka enn frekar frá því sem nú er og raunvextir bankans gætu þurft að vera yfir hlutlausu stigi eins lengi og nauðsynlegt er, sérstaklega við skilyrði ofþenslu og þrálátari verðbólgu á breiðum grunni, eins og fram kemur í áliti sendinefndarinnar.
Hagvaxtarhorfur eru fremur jákvæðar að mati sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en þeim fylgir ójafnvægi og þær eru háðar verulegri áhættu. Í álitinu er þó bent á að hagvöxtur gæti orðið minni og verðbólga meiri en nú er útlit fyrir og að þrengri alþjóðleg fjármálaskilyrði gætu leitt til hærri fjármögnunarkostnaðar íslenskra banka sem reiða sig á alþjóðlega fjármögnun.
Sendinefndin bendir á að brestir í peningastefnu seðlabanka í erlendum iðnríkjum gætu leitt til áframhaldi mikillar innfluttrar verðbólgu, sem myndi gefa tilefni til að herða taumhaldið hér. Frekari spenna er möguleg á vinnumarkaði sem gæti raskað framvindu efnahagsmála og leitt til kjarasamninga sem auka verðbólguþrýsting, að mati sendinefndarinnar.
Í áliti sendinefndarinnar segir að Ísland hafi sýnt mikla þrautseigju gegn röð ytri áfalla síðan árið 2019, en við skilyrði ofþenslu og verðbólgu vel yfir markmiði sé nauðsynlegt að auka aðhald í efnahagsstjórninni en samtímis að verja stöðu þeirra sem lakast standa.
Þá telur sendinefndin að tímabært sé að taka til við kerfisumbætur að nýju, sem ættu að greiða fyrir aukinni fjölbreytni og bæta sjálfbærni og framleiðni í hefðbundnum útflutningsgreinum, meðal annars í ferðaþjónustu. Komandi kjaraviðræður veita tækifæri til þess að samræma raunlaun og framleiðniaukningu, að mati sendinefndarinnar.