Baltasar Kormákur leikstjóri segir kvikmyndaver RVK Studios þéttbókað í haust. Fjöldi erlendra aðila hafi knúið dyra og spurst fyrir um aðstöðuna sem muni skila sér í fleiri verkefnum í framtíðinni.
Verið er að leggja lokahönd á nýtt skrifstofuhús RVK Studios í Gufunesi og af því tilefni sýndi Baltasar mbl.is salarkynnin.
Baltasar telur raunhæft að uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis í Gufunesi verði lokið eftir fimm ár, en hann er þar jafnframt að byggja íbúðir í samstarfi við Spildu.
Hann segir hækkun endurgreiðslu vegna kostnaðar sem fellur til við kvikmyndagerð, úr 25% í 35%, hafa haft mikla þýðingu fyrir greinina á Íslandi. Samkeppnishæfnin hafi styrkst og það, ásamt stórbættri aðstöðu, laði að fleiri verkefni. Raunhæft sé að árlegt útlutningsverðmæti kvikmyndagerðar verði komið í 100 milljarða í ekki svo fjarlægri framtíð.
Vöxtur streymisveitna á þátt í vexti kvikmyndagerðar á Íslandi. Baltasar telur að sú eftirspurn sé komin til að vera, en stórfyrirtæki á borð við Amazon og Apple hafi þar haslað sér völl.
Fáir íslenskir listamenn hafa náð viðlíka alþjóðlegum árangri á þessari öld og Baltasar. Spurður hvort hann sé ekki orðinn valdamikill í íslensku listalífi segir hann völd sín, ef einhver séu, felast í samstarfi.
„Þau eru algjörlega sjálfsköpuð og felast í því að fólk hefur áhuga á að vinna með mér,“ segir Baltasar, sem kveðst opinn fyrir samstarfi við fjárfesta um uppbygginguna sem er fram undan í Gufunesi. Það komi t.d. til greina að stofna hlutafélag í framtíðinni.
Spilda er að reisa íbúðir í Jöfursbási í Gufunesi og er stór hluti íbúða í fyrsta áfanga seldur.
Síðustu mánuði hefur verið unnið að ýmsum verkefnum hjá RVK Studios. Má þar nefna upptökur á þáttaröðinni True Detective með Jodie Foster og kvikmyndinni Snertingu, í leikstjórn Baltasars, sem gerð er eftir samnefndri skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar.