Ísland – saman í sókn, landkynningarverkefni stýrt af Íslandsstofu sem auglýsingastofan Peel vann í samstarfi við alþjóðlegu auglýsingastofuna M&C Saatchi, er nú að renna sitt skeið eftir þriggja ára starf.
Peel fékk verkefnið á sínum tíma eftir útboð á Evrópska efnahagssvæðinu. Fimmtán stofur bitust um samninginn sem var til eins árs með möguleika á tveggja ára framlengingu.
Magnús Magnússon, framkvæmdastjóri Peel, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að verkefnið hafi slegið öll met hvort sem litið sé til árangurs eða alþjóðlegra verðlauna. Niðurstaðan sé í raun lyginni líkust. Átta herferðir hafi farið í loftið, auglýsingabirtingar hafi talið tíu milljarða og sex milljarða virði af fjölmiðlaumfjöllun hafi verið tryggð.
Of langt mál yrði að telja upp öll þau verðlaun sem herferðirnar hafa hlotið en síðast fékk stofan hin virtu bandarísku Effie-markaðsverðlaun fyrir Icelandverse, þar sem leikarinn Jörundur Ragnarsson fer með hlutverk Marks Zuckerbergs, forstjóra Meta, og Andy-verðlaunin fyrir Outhorse Your Email. Þar var fólki boðið að láta íslenskan hest svara tölvupóstum fyrir sig.
Að sögn Magnúsar varð Icelandverse sú herferð sem Íslendingar tengdu hvað mest við og vakti jákvæðustu viðbrögðin innanlands.
Lestu ítarlegra samtal í ViðskiptaMogganum í dag.