Kaffihúsakeðjan og kaffiframleiðandinn Te & kaffi hefur sett skrifstofuhúsnæði sitt við Stapahraun 4 í Hafnarfirði á sölu. Guðmundur Halldórsson, framkvæmdastjóri Te & kaffi segir ástæðuna vera þá að töluverð breyting hafi orðið á kjarnastarfsemi fyrirtækisins.
„Við erum farin að útvista meira, þá sérstaklega framleiðslu á meðlæti fyrir kaffihúsin. Við erum í samstarfi við fjölmarga aðila, eins og til dæmis handverksbakaríið Brikk og framleiðslufyrirtækið Álfasögu. Það hefur ekki verið kaffiframleiðsla í þessu húsnæði í 15 ár og þetta er í dag aðeins skrifstofuhúsnæði,“ segir Guðmundur og bætir við að ef Covid-19 faraldurinn hafi kennt okkur eitthvað hafi það verið að fólk í slíkum störfum geti í raun unnið hvar sem er. Auk þess vinni fólkið sem sinnir utanumhaldi kaffihúsa oft á kaffihúsunum sjálfum.
„Við áttuðum okkur einn daginn á því að við vorum aðeins átta manns á skrifstofunni í 600 fermetra húsnæði. Húsnæðið er einfaldlega allt of dýrt fyrir svo fáar manneskjur og því ákváðum við að selja. Það hefur átt sér stað mikil breyting í rekstrinum á undanförnum misserum og við erum að bregðast við því.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 11. maí.