Deloitte á Íslandi og EY á Íslandi hafa átt í viðræðum um mögulegan samruna fyrirtækjanna. Viðræður eru í gangi og með fyrirvara um gerð áreiðanleikakannana og samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þar segir enn fremur, að sameinað fyrirtæki, undir merki Deloitte, yrði hluti af alþjóðlegu neti fyrirtækisins. Þá er tekið fram að væntanlegur samruni sé háður samþykki Samkeppniseftirlitsins. Forviðræður við Samkeppniseftirlitið eru yfirstandandi.
„Deloitte er leiðandi í faglegri þjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir á Íslandi. Við störfum á virkum samkeppnismarkaði þar sem eftirspurn frá viðskiptavinum eftir víðtækri hágæða heildarþjónustu fer vaxandi.
Við teljum að samlegðaráhrif sé að finna í áherslum og rekstri fyrirtækjanna, sem hvert um sig hefur sín séreinkenni og styrkleika. Sameiningin mun gera okkur kleift að halda áfram að hafa áhrif á það sem skiptir máli á sívaxandi og breytilegum markaði; að veita viðskiptavinum okkar fjölbreytta þjónustu í faglegri ráðgjöf,“ er haft eftir Þorsteini Pétri Guðjónssyni, forstjóra Deloitte á Íslandi.