Markaðsaðilar búast við 6,3% verðbólgu eftir ár

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Markaðsaðilar vænta þess að verðbólga verði að meðaltali 9,4% á yfirstandandi fjórðungi. Þeir gera ráð fyrir því að hún hjaðni áfram og verði 6,3% eftir eitt ár og 4,5% eftir tvö ár.

Þetta er meiri verðbólga en markaðsaðilar væntu í síðustu könnun í janúar, að því er kemur fram í könnun Seðlabanka Íslands á væntingum markaðsaðila 8. til 10. maí.

Leitað var til 39 markaðsaðila á skuldabréfamarkaði, þ.e. banka, lífeyrissjóða, verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, verðbréfamiðlana, fyrirtækja með starfsleyfi til eignastýringar og tryggingafélaga. Svör fengust frá 31 og var svarhlutfallið því 79%.

Langtímaverðbólguvæntingar hækkuðu einnig milli kannana og gera markaðsaðilar ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% á næstu fimm árum og 3,5% á næstu tíu árum.

Könnunin gefur til kynna að markaðsaðilar vænti þess að gengi krónunnar breytist lítið á næstunni og að gengi evru gagnvart krónu verði 150 krónur eftir bæði eitt og tvö ár.

Vextir verði 8,25% eftir eitt ár

Miðað við miðgildi svara í könnuninni búast markaðsaðilar við því að vextir bankans hækki um eina prósentu á yfirstandandi fjórðungi og verði 8,5%. Þá búast þeir við því að meginvextir taki að lækka á fyrsta fjórðungi næsta árs og verði 8,25% eftir eitt ár og 6% eftir tvö ár. Þetta eru hærri vextir en markaðsaðilar bjuggust við í janúarkönnun bankans.

Nokkur breyting var á afstöðu svarenda til taumhalds peningastefnunnar og töldu flestir að taumhaldið væri of laust um þessar mundir eða 66% svarenda, samanborið við 28% í síðustu könnun. Á móti fækkaði þeim sem töldu taumhaldið hæfilegt í 17% úr 56% í síðustu könnun. Um 17% svarenda töldu taumhaldið of þétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka