Baldur Arnarson
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir hlutfall ríkisskulda á þessu ári vera helmingi lægra en áætlað var þegar farsóttin hófst. Titringur á hlutabréfamarkaði í byrjun maí vitni um óvissu í efnahagsmálum. „Við vitum að það geta verið skýringar á lækkun [hjá einstaka félögum] eins og væri hægt að benda á í tilviki Alvotech og Marel og annarra félaga en svona mikil lækkun í Kauphöllinni á einum degi er mjög óeðlileg og hefur einungis tvisvar gerst áður frá 2009.
Þannig að það segir mér stærri sögu af ákveðnu óöryggi og óvissu og þar blandast saman nokkrir hlutir sem að eru óvissan um vaxtaþróun, verðbólguþróun, kjarasamninga fram undan, þróun stríðsátaka og orkumála og efnahagsþróun í öðrum löndum,“ segir Bjarni.
Spurður hvort hækka hefði átt vexti hraðar til að ná verðbólgu niður segir hann margt til í því.
„Ég held að það megi alveg færa rök fyrir því að vextir hefðu mátt vera hærri lengur en þeir hafa verið. Stundum finnst mér Seðlabankinn mega segja skýrar að hann trúi því að vextirnir muni vinna sína vinnu, þau skilaboð þynnast út þegar talinu er aðallega beint að öðrum þáttum sem geta valdið spennu í hagkerfinu. Verkefnið snýst fyrst og fremst um að ná stjórn á væntingum,“ segir Bjarni. Þá sé þróun hagvaxtar á mann áhyggjuefni.
Lestu ítarlegt samtal við Bjarna í ViðskiptaMogganum í dag.