Fyrsta sérvöruverslunin á sviði heyrnarverndar var opnuð með pompi og prakt í gær en Lyfja Heyrn í Lágmúla hefur að markmiði að breyta upplifun fólks sem glímir við heyrnarskerðingu.
Í versluninni er hægt að skoða heyrnartæki, stuðningsvörur heyrnartækja og fyrirbyggjandi lausnir með aðgengi að sérfræðiráðgjöf heyrnarfræðings og sérþjálfaðs starfsfólks í samvinnu við háls-, nef- og eyrnalækni sem starfar hjá Lækningu í Lágmúla.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra klippti á borðann við opnunina. Haft er eftir heilbrigðisráðherra í tilkynningu frá Lyfju að opnunin sé ánægjuleg þar sem boðið sé upp á metnaðarfulla nýjung í þjónustu.
„Hér er verið að taka jákvætt skref í aukinni þjónustu við einstaklinga sem glíma við heyrnaskerðingu. Það er sömuleiðis ánægjulegt að sjá aukna áherslu á forvarnir, fyrirbyggjandi lausnir og snemmgreiningar.“
Haft er eftir Karen Ósk Gylfadóttur, framkvæmdastjóra, vöru, markaðar og stafrænnar þjónustu hjá Lyfju, í tilkynningu að boðið verði upp á sérsniðnar heyrnarvarnir. „Með því að skanna eyrað fáum við stafrænt mót af því sem hægt er að nota til að sérsmíða eyrnatappa.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Lyfju, segist ánægð með rekstrarleyfi frá heilbrigðisráðuneytinu til að selja heyrnartæki og segir Lyfju Heyrn hlakka til að þjónusta viðskiptavini, að því er fram kemur í tilkynningu.