Alvotech tapar 40 milljörðum á þremur mánuðum

Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech
Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech mbl.is/Kristinn Magnússon

Tap lyfjafyrirtækisins Alvotech á fyrsta ársfjórðungi þessa árs nam samtals 276 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 40 milljörðum íslenskra króna. Til samanburðar var tap félagsins á sama tíma í fyrra 77 milljónir dala, eða um 11 milljarðar króna.

Tekjur félagsins jukust umtalsvert og fóru úr því að vera 0,8 milljónir dala á fyrsta ársfjórðungi í fyrra yfir í 15,9 milljónir dala í ár. Rekstrarkostnaður jókst einnig umtalsvert og fór úr 73,1 milljón dala á fyrsta ársfjórðungi í fyrra í 112,2 milljónir dala í ár. Þar af var kostnaðarverð seldra vara 39,1 milljón dala, en fram kemur í tilkynningu frá félaginu að ástæða þess að kostnaðarverð sé hærra en tekjur skýrist einkum af því hvernig kostnaður við markaðssetningu og framleiðslukostnað falli í tíma.

Stjórnunarkostnaður var 22,2 milljónir dollara í ársfjórðungnum, samanborið við 24,2 milljónir dollara á sama tíma fyrir ári. Lækkunina má einkum rekja til minni útgjalda vegna lögfræðikostnaðar á sviði einkaleyfismála og við skráningu félagsins á markað á síðasta ári.

Félagið metur óefnislegar eignir sínar á 626 milljónir dala og hækka þær um tæplega 30 milljónir dala á milli ára, en efnislegar eignir eru 269 milljónir dala og hækka um 40 milljónir dala milli ára.

Í síðasta mánuði var greint frá því að matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefði synjað Alvotech um markaðsleyfi fyrir lyfið AVT02, sem er líftæknilyfjahliðstæða við Humira (adalimumab). Lækkuðu hlutabréf félagsins gríðarlega í kjölfarið og standa nú um 40% lægra en þau voru fyrir þá ákvörðun. Í uppgjörstilkynningu í dag segir að eina skilyrðið sem eftir er að uppfylla fyrir veitingu markaðsleyfisins sé fullnægjandi niðurstaða úr úttekt á aðstöðu fyrirtækisins í Reykjavík.

Félagið segir í tilkynningunni að fimmta lyf Alvotech, AVT05, fyrirhugað líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi og Simponi Aria (golimumab), hafi verið tekið til klínískra rannsókna á sjúklingum.

Í tilkynningunni er haft eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og forstjóra félagsins, að hann telji félagið í góðri stöðu. „Við erum afar stolt af þeirri fullkomnu aðstöðu sem við höfum byggt upp til að þróa og framleiða líftæknilyfjahliðstæður. Þá er ánægjulegt að fimm þeirra lyfja sem við höfum verið með í þróun eru annað hvort komin á markað eða hafa verið tekin til klínískra rannsókna á sjúklingum, þar með talið AVT02 sem er þegar komið á markað. Við erum í afar góðri stöðu til að nýta okkur vaxandi tækifæri á mörkuðum fyrir líftæknilyfjahliðstæður. Þó að við störfum um allan heim og höfum þegar markaðsett fyrstu líftæknilyfjahliðstæðuna í 17 löndum, leggjum við áherslu á að koma AVT02, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Humira í háum styrk með útskiptileika, á markað fyrir sjúklinga í Bandaríkjunum,“ er haft eftir Róberti.

Gerir hann ráð fyrir að leyfið fyrir AVT02 muni liggja fyrir síðar á þessu ári. „Við höldum áfram að vinna náið með Matvæla- og lyfjaeftirliti Bandaríkjanna (FDA) til að fá samþykktar þær tvær fyrirliggjandi umsóknir um markaðsleyfi fyrir AVT02 sem liggja fyrir hjá eftirlitinu. Við erum reiðubúin að bregðast við mögulegum sviðsmyndum, þar með talið að leggja að nýju inn fyrstu markaðsleyfisumsóknina og að gangast hugsanlega undir aðra úttekt á framleiðsluaðstöðunni, sem við gerum ráð fyrir að myndi þá fara fram síðar á þessu ári, ef sú staða kæmi upp,“ er jafnframt haft eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK