Heiðdís Inga Hilmarsdóttir er nýr verkefnastjóri á sviði sjálfbærni hjá Krónunni. Heiðdís mun leiða margvísleg verkefni sem stuðla að því að Krónan nái markmiðum sínum um sjálfbærni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu en það segir að í stefnu Krónunnar í málaflokki sjálfbærni megi meðal annars nefna minnkun matarsóunar, að nota umhverfisvæna orkugjafa og lágmarka orkunotkun, sýna ábyrgð í vali á umbúðum og vera leiðandi í sorpflokkun.
Haft er eftir Guðrúnu Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, um að ráðning Heiðdísar sé til marks um síaukna áherslu Krónunnar á sjálfbærni.
Heiðdís er með meistaragráðu í sjálfbærri þróun frá Uppsalaháskóla ásamt því að vera menntaður vöruhönnuður úr Listaháskóla Íslands. Hún hefur áður starfað hjá Havarí menningarsetri í Berufirði, í tæknideild Þjóðleikhússins, auk þess að hafa stofnað og rekið fyrirtæki og hannað og markaðssett eigin vörur.