Auglýsingastofan Pipar\TBWA hefur gengið formlega til liðs við TBWA stofur annarra Norðurlanda. Saman mynda stofurnar eina heild, TBWA\Nordic en markmið samstarfsins er að bæta þjónustu við fyrirtæki sem vinna að markaðssetningu á Norðurlöndunum.
Guðmundur Pálsson framkvæmdarstjóri Pipars\TBWA, segir að mörg fyrirtæki líti á Norðurlöndin sem eitt markaðssvæði. Mikilvægt sé að hafa einn tengilið fyrir öll löndin. „Það skapar mikið virði og minnkar flækjustig.”
Stofur TBWA\Nordic vinna að markaðssetningu á þekktum vörumerkjum eins og Apple og Santa María. Að sögn Guðmundar skiptir þekking sérfræðinga á hverjum heimamarkaði fyrir sig miklu máli.
Í lok maí munu stjórnendur samsteypunar hittast á Íslandi meðal annars til að kynna lausnir fyrir íslenskum fyrirtækjum í útflutningi. „Við höfum lítið verið að bjóða íslenskum kúnnum upp á þessa þjónustu hingað til en ætlum þarna að bjóða nokkrum aðilum á fund til að kynna fyrir þeim starfsemina."