Gefa ekki upp laun sendla

Sendlaþjónustan Wolt býður upp á þjónustu sína í 25 löndum. …
Sendlaþjónustan Wolt býður upp á þjónustu sína í 25 löndum. Sendlar hjá Wolt eru ekki fastráðnir starfsmenn heldur flokkast þeir undir sjálfstæða verktaka. Mynd/Wolt

Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt í Noregi og á Íslandi, segir að fyrirtækið geti enn ekki gefið upp hver launin verða hjá sendlum hér á landi.

Hún segir hins vegar að þau miði við að meðallaun sendla séu um 4.000 krónur á tímann. Hún segir að fyrirtækið sé ekki búið að vera starftækt hér á landi nógu lengi til þess að getað gefið upp nákvæmari upphæð.

Stenersen hélt stuttan fyrirlestur um starfsemi Wolt hér á Íslandi á Innovation Week 2023, sem haldin er í Grósku í vikunni. Fyrirtækið hóf starfsemi hér á landi í byrjun þessa mánaðar.

Um er að ræða nýja tegund sendlaþjónustu hér á landi þar sem sendl­ar fyrirtækisins eru ekki fastráðnir starfs­menn, held­ur sjálfstæðir verktakar sem taka við verkefnum í gegnum snjallsímaforrit. Sendlar fá því ekki greitt tímakaup heldur fyrir hverja sendingu sem þeir taka að sér.

Háð sendingartíma, vegalengd og álagi

Í kjölfar fyrirlestrar hennar í dag náði blaðamaður tali af Stenersen. Hún segir við mbl.is að fyrirtækið geti ekki gefið upp hver laun fyrirtækisins. Þegar hún er er spurð hvers vegna segir hún:

„Þegar sendill samþykkir pöntun í appinu fær hann verðupphæð. Sú upphæð er breytileg eftir því hversu lengi þeir eru að koma sendingunni til skila og því sem þeir þurfa að hafa fyrir því að koma sendingunni á sinn stað. Það er ekki bara ein upphæð fyrir hverja pöntun, heldur fer það eftir ýmsu. Síðan ákveður sendillinn hvort hann vilji taka að sér sendingar eða ekki. Þess vegna nær það engri átt að sýna eitt verð, því það er ekki bara eitt verð fyrir hverja pöntun en við reynum að gera hverja einustu pöntun jafn aðlaðandi. Ef maður þarf að fara langa vegalengd eða nota mikið bensín viljum við borga meira fyrir það.“

Hún segir að þær upplýsingar munu liggja fyrir þegar fyrirtækið hafi starfað lengur hér á landi.

Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt í Noregi og á Íslandi, hélt …
Elisabeth Stenersen, framkvæmdastjóri Wolt í Noregi og á Íslandi, hélt fyrirlestur um fyrirtækið á Innovation Week í dag. mbl.is/Agnar

Miða við 4.000 krónur á tímann

Hún segir að launin miði við þjónustustarf í hverju landi fyrir sig. „Í Noregi eru lágmarkslaun fyrir þjónustustarfsfólk um 17 evrur [á tímann]. Okkar sendlar þar fá um 20-22 evrur á tímann,“ segir hún, en það eru um 3.000-3.300 krónur.

Hún segir að fyrirtækið geri launaviðmið á klukkustund. Hér á landi miði þau við að launin séu um 4.000 krónur á klukkustund að meðaltali.

Sagt vera á dökkgráu svæði

Heimildin greindi frá því í síðustu viku að ráðningarsambandið á milli Wolt og sendla fyrirtækisins væri „á dökkgráu svæði“ að sögn Halldórs Oddssonar, sviðsstjóra lögfræði- og vinnumarkaðssviðs ASÍ. Sendlar noti sín eigin farartæki, t.d. hjól eða bíla, og Wolt greiðir ekki fyrir það bensín sem sendlar notast við.

Wolt markaðssetur sig sem sveigjanlegur vinnuveitandi, þar sem hægt er vinna eins mikið eða lítið og starfsfólki hugnast. Stenersen segir við mbl.is að algengast sé í Noregi að sendlar séu aðeins að vinna um 16 tíma á viku.

Starfsemin fer þannig fram að sendlar fá skilaboð í Wolt Partner-appið með tilboði sem þeir mega velja hvort þeir taki að sér eða ekki. Wolt er nú í eigu bandaríska fyrirtækisins DoorDash. Stenersen segir að fyrirtækin hafi lokið við kaupin í fyrra.

Frekari umræða um starfsemina mun fara fram á morgun á vegum Innovation Week og ber heitið þar sem Stenersen, Lilja Sigurgeirsdóttir alþingiskona, Eyþór Máni Steinarsson, sem er framkvæmdarstjóri Hopp, og fleiri munu eiga í rökræðum um þennan nýja þjónustuvettvang sem fyrirtækið býður upp á.

Markaðurinn á Íslandi tók vel í þjónustuna

Stenersen segir að íslenski markaðurinn hafi tekið vel í þjónustuna. Söluaðilar hafi verið mjög spenntir fyrir þjónustunni og nú séu um 85 verslanir og veitingastaðir sem bjóða upp á heimsendingar á þeirra vegum. Hún segir einnig að svipaður fjöldi sendla starfi hjá fyrirtækin en þau muni bæta fleirum við sig á næstunni.

„Við höfum átt góða byrjun, við eigum eftir að sjá hvernig fer er líður á en hingað til gengur þetta mjög vel,“ segir hún. Hún segir að stækkunin á Íslandi sé meðal þeirra árangursríkustu hjá fyrirtækinu.

Stenersen segir að Wolt bjóði upp á þjónustu sína í yfir 500 borgum í 25 löndum. Í augnablikinu er aðeins hægt að nýta sér þjónustuna á takmörkuðu svæði í Reykjavík en hún segir að fyrirtækið ætli á stækka þjónustusvæði um leið og þau geta.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka