„Vextir hafa verið að hækka, og já, ég held að vaxtahækkanir séu byrjaðar að virka,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is spurður hvort stýrivaxtahækkanir Seðlabankans séu að skila árangri.
Peningastefnunefnd Seðlabankans kynnir næstu vaxtaákvörðun sína í fyrramálið.
Bjarni segir að ávinning vaxtahækkana megi til dæmis sjá á fasteignamarkaði.
„Við eigum eftir að sjá kannski betur inn í það hvaða áhrif vaxtahækkanir hafa annars staðar, eins og til dæmis í lánveitingum bankanna.“
Þá minnist hann á yfirstandandi kjaralotu og verkföll BSRB.
„Það eru þættir sem að hvorki ríkisfjármálin né Seðlabankinn hafa fulla stjórn á, sem að geta líka haft áhrif. Fyrir utan það að svo virðist sem að það séu að koma inn kostnaðarverðshækkanir að utan áfram inn á þessu ári. Það sjáum við á því að þessir undirliggjandi þættir í vísitölumælingunni eru margir að hækka, þ.e.a.s. hækkunin er á mjög breiðum grundvelli.“
Myndirðu segja að vaxtahækkanir séu æskilegar í núverandi landslagi?
„Ég held að það megi mögulega færa fyrir því rök að vextir hefðu fyrr átt að hækka meira. En já, ég held að það verði ekki hjá því komist að halda vöxtum háum til þess að væntingar um verðbólgu inn í framtíðina færist nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans og stjórnvalda.“
Verðbólgumarkmið bankans er 2,5% árleg verðbólga en hagspá ASÍ, sem var gefin út í gær, gerir ráð fyrir að verðbólga verði um 7,1% undir lok þessa árs og að meðaltali 8,5% á árinu.
„Okkar meginvandi í augnablikinu er sá að væntingar um verðbólgu til lengri tíma er enn of háar,“ segir Bjarni.
Í svari á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar um skýrslu fjármálaeftirlitsnefndar Seðlabanka Íslands fyrir tveimur vikum sagði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri að ákveðnir hópar á fasteignamarkaði hafi gleymst. Hann sagði að sveitarstjórnir og ríkið mættu taka það til sín.
„Ég held í fyrsta lagi þá hefur höfuðborgin lagt miklu meiri áherslu á að þétta byggð og fara inn á dýra byggingarreiti, heldur en að hér verði byggðar ódýrar íbúðir. Þegar að höfuðborgin á sama tíma tekur til sín allar hækkanir á fasteignamati þá eru fasteignaskattarnir að hækka með hækkuðu fasteignamati. Þetta tvennt saman getur valdið vandræðum á fasteignamarkaðinum, sérstaklega fyrir fyrstu íbúðakaupendur ef að ekki eru aðrar aðgerðir á móti.
Það er dálítið sérstakt þegar maður heyrir mikið ákall um að hækka húsnæðisbætur, jafnvel setja leiguþak þegar að menn ganga þannig fram að það er verið að hækka skatta á fasteignir og stýra uppbyggingunni inn í dýrar eignir. Það eru ákvarðanir sem borgarstjórnin er að taka og málið dálítið komið í hring ef ríkisstjórnin á síðan að fara að greiða bætur sem eiga rætur í þeim ákvörðunum,“ segir Bjarni.
Hann minnist á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) skilaði inn skýrslu fyrir nokkrum dögum síðan.
„Þar er komist að þeirri niðurstöðu að aðhaldið í ríkisfjármálum – sem að birtist okkur í mjög hratt batnandi afkomu ríkisins – sé mátulegt miðað við aðstæður,“ segir ráðherra.