Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vill sjá breytingar á álagningarseðlum á þann veg að yfirlit verði gefið yfir kaupmátt ráðstafanatekna hvers og eins sem og þróun skattbyrðarinnar yfir ákveðið tímabil. Þetta kom fram í samtali hans við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í dag. Áður hafði hann tjáð sig um málefnið í færslu á Facebook.
Álagningarseðlar einstaklinga vegna tekna ársins 2022 voru birtir út í gær. Þá má nálgast á vef Skattsins.
Nokkuð er síðan álagningarseðillinn hætti að berast inn um bréfalúguna. Nú er hann gefinn út á rafrænu formi og á honum kemur meðal annars fram niðurbrot á skattgreiðslum og hlutfallsleg skipting eftir útgjaldarsviðum ríkisfjármálanna.
Á undanförnum árum hafa verið gerðar ýmsar breytingar á álagningarseðlinum í þeim tilgangi að auka upplýsingagjöf. Bjarni leggur til að unnið verði áfram að frekari breytingum, en þeim fylgi aukið gagnsæi og aðhald við nýtingu almannafjár.
„Það sem ég er með fyrst og fremst í huga eru skýrari og betur greinanlegar upplýsingar um það hvernig staðan hjá hverjum og einum er að þróast yfir tíma. Þá mætti líka sjá fyrir sér samantekt á tilfærslum, það er að segja hinum ýmsu bótagreiðslum, og bera saman við greidda skatta.“
Þá segir Bjarni að jafnvel mætti birta söguleg gögn fyrir hvern og einn, þar sem yfirlit væri gefið yfir kaupmátt ráðstafanatekna hvers og eins og þróun skattbyrðarinnar yfir ákveðið tímabil.
Næstu skref verða tekin með praktísk atriði í huga, segir Bjarni. Þegar hafi verið snert á hugmyndunum við skattinn.
„Það er ótvírætt að við búum yfir gríðarlegu magni upplýsinga sem mér finnst mikilvægt að deila með fólki þannig að það geti betur áttað sig á því hvernig spilast úr samskiptum við stjórnvöld.“