Það er ekkert launungarmál að erlend fjármögnun hefur reynst íslensku bönkunum erfið, þá sérstaklega á síðasta ári. Aðspurð neitar Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka því þó að bankinn sé hikandi við að veita erlend lán til viðskiptavina og segir bankann búa yfir getu til að standa undir þeim væntingum sem viðskiptavinir gera til veitingar lána í hin ýmsu atvinnuverkefni.
Þetta er meðal þes sem rætt er um í ítarlegu viðtali við Birnu í ViðskiptaMogganum í dag. Hún víkur meðal annars að lánshæfismati íslenskra fjármálafyrirtækja og segir að gera þurfi mun betur í því að kynna stöðuna fyrir erlendum lánshæfismatsfyrirtækjum.
„Það var ánægjulegt að sjá þegar S&P Global Ratings uppfærði lánshæfismat ríkisins með jákvæðum horfum fyrr í þessum mánuði, en við getum gert mun betur í þessu heilt yfir,“ segir Birna.
„Við finnum það þegar við ræðum við erlenda aðila að Ísland og smæð landsins og hagkerfisins er ekki vandamálið, heldur það að lánshæfismatið sé ekki hærra. Það fellur á ábyrgð ríkisins, Seðlabanka Íslands og bankanna sem þurfa að leiða þá vinnu […] því það er mikið hagsmunamál bæði fyrir heimili og fyrirtæki að koma lánshæfiseinkunn okkar í betra horf.“
Í viðtalinu ræðir Birna um stöðuna í hagkerfinu, horfurnar fram undan, um samkeppni í fjármálageiranum og margt fleira.