Breytt aðferðafræði Hagstofunnar við útreikninga á viðskiptum með hugverk í lyfjaiðnaði hafði þau áhrif að mældur hagvöxtur hér á landi á síðasta ári varð umtalsvert minni en annars hefði verið. Metur Seðlabankinn áhrifin af þessum breyttu útreikningum til lækkunar á hagvexti upp á 0,2 prósentustig. Þetta kom meðal annars fram í máli Þórarins G. Péturssonar, aðalhagfræðings bankans, þegar hann kynnti ritið Peningamál í morgun.
Ritið kom út samhliða ákvörðun peningastefnunefndar um að hækka stýrivexti um 1,25 prósentustig í morgun, en stýrivextir standa núna í 8,75%.
Hagvöxtur á síðasta ári mældist 6,4%, en spá Seðlabankans hafði gert ráð fyrir 7,1% hagvexti. Sagði Þórarinn að skýringuna á þessum mun væri að finna í utanríkisviðskiptum, meðal annars í breyttri aðferðafræði Hagstofunnar varðandi hugverk í lyfjaiðnaði. Sagði Þórarinn að Seðlabankinn hafði gert ráð fyrir mikilli aukningu í útflutningi undir þessum lið miðað við upplýsingar frá lyfjafyrirtækjum. Með breytingu Hagstofunnar hafi þessar tölur hins vegar verið teknar út og þannig hafi útflutningur aukist mun minna en áætlað hafi verið.
Sagði Þórarinn að ef Hagstofan hefði ekki breytt þessum útreikningum sínum hefði hagvöxturinn mælst 6,6% og þannig verið aðeins nær spá Seðlabankans en raunin varð. Sagði hann þessa breytingu einnig lita horfur í útflutningi á þessu ári, en einnig spili inn í breytingar Hagstofunnar þegar komi að útreikningum í tengslum við flugvélakaup.
Spá Seðlabankans gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur á þessu ári verði 4,8%, árið 2024 verði hagvöxtur 2,6% og árið 2025 verði hann 2,7%.