Seðlabankinn með „skýr skilaboð“

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hækkun stýrivaxa um …
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hækkun stýrivaxa um 1,25 prósentustig hafa komið á óvart. Samsett mynd

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), er sammála skilaboðum Seðlabanka Íslands um að ekki sé hægt að slá niður verðbólgu á meðan laun hækka hratt. Hins vegar hafi hækkun stýrivaxta um 1,25 prósentustig komið á óvart.

Þetta er í þrettánda skiptið í röð þar sem stýrivextir hækka og eru þeir nú 8,75%. Jafnframt ákvað­ nefndin að hækka fasta bindiskyldu inn­lánsstofnana úr 1% í 2%, sem þýðir að viðskiptabankar verða látnir leggja meiri hluta innlánsfjár inn á reikning sinn hjá seðlabankanum.

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri sagði á kynningarfundi Seðlabankans í morgun að ekki hefið tek­ist að ná þjóðarsátt til að ná niður verðbólgu í land­inu. Hann vís­aði hann þá til launahækkana og kjaraviðræðna undanfarna mánuði. Ásgeir segir að SA viðurkenni ábyrgð.

Ljóst að launahækkanir þrýsti á verðbólgu

„Seðlabankinn var enn á ný með skýr skilaboð til okkar sem aðila vinnumarkaðarins um að sýna ábyrgð við kjarasamningaborðið og við tökum þau skilaboð mjög alvarlega. Við hjá SA viðurkennum svo sannarlega þá ábyrgð,“ segir Anna en bendir svo á að það megi sín lítils ef sá skilningur „ríki ekki báðum megin við borðið“.

„Seðlabankastjóri talaði um að það væri borin von að ná niður verðbólgu á meðan laun eru að hækka í þeim takti sem verið hefur á meðan framleiðniaukning er ekki meiri en raunin er,“ segir Anna við mbl.is. Hún bætir við að það sé því ljóst að launahækkanir séu að setja aukinn þrýsting á verðbólgu sem skili sér í þessum miklu vaxtahækkunum sem sé þróun sem SA hafi ítrekað varað við.

„Aðalhagfræðingur Seðlabankans [Þórarinn G. Pétursson] kom inn á þyngdarlögmál hagfræðinnar í þessu samhengi,“ segir Anna og á þá við um það geti ekki gengið til lengdar að nafnlaunahækkanir séu langt umfram framleiðnivöxt.

„Við erum að sjá að einhverju leyti núna þessa leiðréttingu, það er að raunlaun eru farin að lækka, en við megum ekki gleyma því að raunlaunahækkanir voru mjög miklar árin á undan. Þróunin er þó allt önnur og mun verri í löndunum í kringum okkur sem er eitthvað sem er vert að hafa í huga.“

Verðbólga kemur illa við alla

Anna segir að þessi vaxtaákvörðun seðlabankans komi á óvart. „Eins og kom fram í máli Seðlabankans hafa hagtölur hins vegar verið að þróast þannig að enn er mikil spenna í hagkerfinu og verðbólguhorfur ekki að batna með þeim hætti sem vonast var til, því miður.“

Hún segir að hærri vextir koma auðvitað mjög illa við heimili og fyrirtæki á breytilegum vöxtum.

„Á hinn bóginn kemur mikil verðbólga illa við alla, ekki síst þá sem minnst hafa milli handanna og verja stórum hluta sinna ráðstöfunartekna í nauðsynjavörur. Það má því segja að peningastefnunefnd sé milli steins og sleggju en hún hefur eitt hlutverk, sem er að halda verðbólgu við markmið,“ segir hún.

„Ég óttast það að ört hækkandi vextir, þó þeir kunni að vera nauðsynlegir til að ná verðbólgu niður, muni frysta ýmiss konar fjárfestingu, svo sem í íbúðarhúsnæði.“

Hún segir það hafa varla farið fram hjá neinum að það að viðhalda þurfi dampi í íbúðabyggingu til að mæta mikilli eftirspurn og til að draga úr þeim miklum verðhækkunum sem verið hafa á þeim markaði.

Vilja að dregið sé úr skattheimtu

„Það var einnig athyglisvert að sjá greiningu bankans á áhrifum ríkisfjármála á verðbólguhorfur og hvernig aukið aðhald á þeim bænum gæti dregið úr verðbólguþrýstingi, þannig dregið úr þörf fyrir vaxtahækkanir og haft jákvæð áhrif á fjárfestingu,“ segir Anna.

Hún segir enn fremur að afkoma ríkissjóðs hafi batnað hægar en ætla mætti út frá efnahagsumsvifum, eins og fram kemur í peningamálum, og æskilegt að aðhald væri meira.

Hún segir að lokum að þó svo að skattahækkanir væru til þess fallnar að draga með óbeinum hætti úr einkaneyslu sé slíkt „ekki lausn sem okkur hugnast enda tölum við fyrir því að dregið sé úr skattheimtu. Áhrif aðhaldsaðgerða á útgjaldahlið væru meiri eins og við höfum einnig bent á.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK