„Þá væri ég eini flokkurinn á Alþingi“

Fjármála- og efnahagsráðherra kveður Katrínu Jakobsdóttur hafa veitt ríkisstjórninni sterka …
Fjármála- og efnahagsráðherra kveður Katrínu Jakobsdóttur hafa veitt ríkisstjórninni sterka forystu og ber forsætisráðherra vel söguna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er áhyggjuefni að vextir þurfi að hækka þetta mikið,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í samtali við mbl.is um stýrivaxtahækkun Seðlabankans í dag. „frá því að við lögðum fram fjármálaáætlun fyrir páska er ekki hægt að segja að verðbólguhorfur hafi batnað mikið, þvert á móti,“ segir ráðherra og dregur hvergi undan.

Bjarni segir stýrivaxtahækkunina gefa tilefni til að skoða hvort auka þurfi aðhaldið á næsta ári, „við erum svo sem alltaf að uppfæra mat okkar fyrir yfirstandandi ár og vissulega hefur afkoman verið að batna, en þetta mál snýst um tvennt, annars vegar að leggja mat á þörfina fyrir aukið aðhald, umfram það sem við höfum þegar kynnt, og hins vegar að útfæra aðgerðir vegna þeirra sem eru í hve viðkvæmastri stöðu,“ segir ráðherrann.

Hvaða mælistiku leggurðu?

Segir Bjarni ríkisstjórnina hafa gefið þá yfirlýsingu að hún muni hækka bætur almannatrygginga á miðju ári. „Til móts við þessa verðbólgutölu sem er í kortunum.“

En hvers vegna stendur Ísland alltaf svona illa peningalega Bjarni?

„Það fer eftir því hvaða mælistiku þú vilt leggja á hlutina. Ef þú skoðar hvernig fólki gengur að ná endum saman þá gengur það betur á Íslandi en í nágrannaríkjunum, raunlaun hafa verið að skreppa saman í flestum Evrópuríkjum á meðan þau hafa verið varin á Íslandi, laun hafa á undanförnum árum verið að hækka umfram verðalag og það ástand er einungis að litlum hluta að gefa eftir í augnablikinu og langtum minna en annars staðar,“ svarar Bjarni.

Kveðst hann efast um að fólk kysi lægri vexti og verðbólgu og þess í stað að hafa minna milli handanna. „Kaupmáttur er þrátt fyrir allt mjög sterkur. Hóparnir sem við höfum mestar áhyggjur af núna eru annars vegar viðkvæmustu hóparnir, tekjulægstu einstaklingarnir sem hafa minnst borð fyrir báru, og svo hins vegar þeir sem eru á húsnæðismarkaði með breytilega vexti, það er að segja óverðtryggða vexti. Þar leggjum við alla áherslu á að fjármálafyrirtækin komi til móts við sína viðskiptamenn, rétt eins og þau segjast munu gera og við munum fylgjast mjög vel með því,“ segir Bjarni.

Þarf að sérsníða aðgerðir?

Þar kveður hann ýmis úrræði í boði, hvort tveggja skilmála lána en í öðrum tilvikum geti lánþegar fært sig úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð og slegið þar með niður greiðslubyrðina.

„Við erum að horfa á tvennt núna, hvort ástæða sé til að auka aðhaldið og hins vegar hvort við þurfum að sérsníða aðgerðir fyrir þá hópa sem höllustum fæti standa,“ bætir ráðherra við.

Nú hefur þú marga fjöruna sopið, meðal annars sem fjármála- og efnahagsráðherra. Hvernig finnst þér íslenskt þjóðfélag hafa breyst eftir bankahrunið 2008?

„Ef við berum saman erfiðleikana þá og það sem við stríðum við í dag er ólíku saman að jafna. Nú erum við að fást við þenslu, ofhitnun í hagkerfinu. Þá vorum við að fást við atvinnuleysi, á Íslandi í dag er full atvinna. Við vorum í gjaldeyrishöftum. Við erum ekki í neinu slíku í dag, ríkissjóður er í ágætri stöðu til að bregðast við,“ svarar ráðherra.

Segir hann að til að lýsa stöðunni í dag sé verið að taka mikið út úr hagkerfinu. „Við erum komin fram úr okkur í því að kreista út lífskjör í dag og það getur verið sársaukafullt að finna nýjan jafnvægispunkt.“

Þröngir hagsmunir of víða

Það sem að sögn Bjarna hefur þó valdið honum mestum vonbrigðum er hve illa hefur gengið að stilla saman aðgerðir stjórnvalda og vinnumarkaðar.

Hvernig stendur á því?

„Ef ég hefði einfalt svar við því væri ég örugglega eini flokkurinn á Alþingi,“ svarar Bjarni og glottir við tönn svo heyra má gegnum símtal. „Allt of margir eru að horfa á stöðuna út frá þröngum hagsmunum. Fleiri þurfa að forgangsraða í þágu heildarhagsmuna sem eru meiri stöðugleiki og meiri sígandi lukka í lífskjarasókninni í stað þess að taka sem mest af borðinu hverju sinni,“ segir Bjarni.

Slíkt birtist með mörgum hætti, til dæmis á vinnumarkaði þar sem kröfugerð sé að mati ráðherra ósamrýmanleg. „Annars vegar erum við með hópa sem krefjast mikillar hækkunar fyrir lægstu laun. Í öðru lagi erum við með hópa sem heimta að menntun sé metin til launa. Í þriðja lagi erum við með hópa sem segja að sérfræðingar í heilbrigðismálum muni ekki flytja til landsins nema laun séu samkeppnishæf miðað við alþjóðlegan markað. Þetta er ekki samrýmanlegt, ef við ætlum að mæta öllum þessum kröfum eru laun stöðugt að hækka langt umfram það sem styður við jafnvægi. Ef þú horfir fimm ár aftur í tímann hafa laun hvergi hækkað eins mikið og á Íslandi,“ segir ráðherra og er mikið niðri fyrir.

Líður að lokum

Segðu mér þá svona að lokum, hvernig finnst þér að starfa í núverandi ríkisstjórn, hefur hún gert landinu gott?

„Já, ég held að við höfum tekist á við ótrúlega erfiðar aðstæður á undanförnum árum, þar vísa ég ekki síst í heimsfaraldurinn,“ svarar Bjarni, nú örlítið blíðari á manninn. „En við náðum líka öðru markmiði sem var sjálfstætt markmið með stofnun þessarar ríkisstjórnar, „það var að tryggja pólitískan stöðugleika. Á hinn bóginn getur það verið krefjandi að sætta ólík sjónarmið og það getur dregið úr skerpunni í pólitísku sýninni en heilt yfir held ég að þessi ríkisstjórn hafi verið eini valkosturinn og líklegust til að skila þjóðinni fram á veginn. Ég hef haft frekar einfaldan mælikvarða á hvort okkur sé að ganga vel og það er hvernig gengur hjá venjulegu fólki sem er í fullu starfi og að ala upp börn og svo framvegis. Öll gögn benda til þess að okkur hafi tekist að styrkja stöðu allra tekjutíunda í landinu þótt við glímum núna við ákveðinn mótbyr,“ segir ráðherra og fær þar með algjöra lokaspurningu.

Hvernig finnst þér að starfa með Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum?

„Katrín hefur veitt ríkisstjórninni mjög sterka forystu og svo höfum við bæði við gerð stjórnarsáttmála og á kjörtímabilunum þurft að finna leiðir til að sætta ólík sjónarmið í hinum ýmsu málaflokkum, það átti alveg eins við á síðasta kjörtímabili og þessu,“ svarar Bjarni og segir persónulegt traust ríða baggamuninn í ríkisstjórnarsamstarfi.

„Það hefur í sjálfu sér gengið ágætlega en við höfum áhyggjur af verðbólgunni, okkar stærsta viðfangsefni um þessar mundir er að ná henni niður og það eru vonbrigði í ríkisstjórninni yfir að við séum ekki komin lengra með að ná tökum á stöðunni sem samfélag. Ég held að laun hafi hækkað of mikið, ég held að aðhald ríkisfjármála hefði mátt vera meira og ég held að vextir hefðu mátt vera hærri,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra að lokum og fær þar með frið í lok viðtals sem átti bara að vera tvær setningar um stýrivexti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK