Íslenski fataframleiðandinn 66° Norður var rekinn með um 400 milljóna króna tapi á síðasta ári. Helgi Rúnar Óskarsson forstjóri félagsins segir að þótt aldrei sé ánægjulegt að skila neikvæðri rekstrarniðurstöðu, sé hann mjög ánægður með árið í heild.
„Við unnum samkvæmt áætlun. Niðurstaðan er í takti við það sem við gerðum ráð fyrir. Aðgerðir sem við réðumst í á árinu, eins og fjárfesting í birgðum og umfangsmikil uppbygging á erlendum mörkuðum, með opnun flaggskipsverslunar á Regent Street í London og mikilli erlendri markaðssókn, voru kostnaðarsamar, en markmiðin náðust og ég er því mjög ánægður með árið í heild,“ segir Helgi.
Hann segir að meðvitað hafi verið tekin ákvörðun um að kaupa mikið inn af vörum sem vitað var að yrðu áfram í vörulínunni. „Við töldum víst að aðfangakeðjur gætu brostið vegna faraldursins. Því yrði betra að eiga meira en minna, til að verða ekki fyrir tekjutapi ef flík seldist upp.“
Hann segir þetta hafa gefist vel. „Eitt dæmi er jakki sem átti að koma í mars í fyrra en kom svo ekki fyrr en í nóvember. Það hefði verið slæmt að missa margra mánaða sölu á þessari tilteknu flík. Við urðum því ekki fyrir miklu tekjutapi í fyrra út af vöruskorti.“
Fjárfestingu ársins má glöggt sjá í ársreikningi félagsins. Í byrjun 2022 var félagið skuldlaust en í lok árs skuldaði það 1,6 milljarða króna. Um 300 m.kr. einskiptiskostnaður var í tengslum við innkomu á breska markaðinn og opnun nýrrar verslunar.
Helgi segir markmið um að halda grunnrekstrinum góðum, hafa náðst. „Við erum með fína tekjuaukningu milli ára, eða 17%, og góða framlegð.“
Tekjurnar á árinu voru 5,6 milljarðar króna en höfðu verið 4,8 milljarðar árið á undan.
Helgi segir að viðtökur við nýju versluninni í Lundúnum hafi farið fram úr björtustu vonum. Að baki velgengninni liggi þó gríðarleg vinna.
Lestu meira um málið í þriðjudagsblaði Morgunblaðsins.