Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti kaup svissneska bankans UBS á Credit Suisse í dag.
UBS ákvað í mars að kaupa Credit Suisse á rúmlega þrjá milljarða Bandaríkjadala, eða rúmlega 420 milljarða króna.
Credit Suisse hefur verið sagður á barmi gjaldþrots og krafðist UBS því mikils afsláttar af kaupverðinu. Báðir bankarnir eru frá Sviss en svissneska ríkið hefur ábyrgst skuldir Credit Suisse að ákveðnu marki til þess að lágmarka áhættu UBS. Þar að auki hljóta báðir bankar lánafyrirgreiðslur upp á 110 milljarða Bandaríkjadala.
Framkvæmdastjórn ESB hefur nú úrskurðað að samruninn dragi ekki úr samkeppni á mörkuðum þar sem starfsemi bankanna skarast á evrópska efnahagssvæðinu.
Alain Berset, forseti Sviss, hefur einnig lagt áherslu á mikilvægi þessarar yfirtöku fyrir svissneskt efnahagskerfi í heild.
Credit Suisse er einn af þeim 30 bönkum sem hafa verið flokkaðir sem „kerfislega mikilvægir“ en margt bendir til þess að fjárfestar hafi lengi vitað að hann væri veikur hlekkur í þeirri keðju.