Skipulagsbreytingar tóku gildi innan samstæðu Festi í dag. Nýr framkvæmdastjóri N1 hefur verið ráðinn og tvær framkvæmdastjórastöður í Festi sameinaðar. Við þessar breytingar kveðja sjö starfsmenn en tveir nýir eru ráðnir til starfa. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Festi til Kauphallarinnar í dag.
Hinriki Erni Bjarnasyni, sem starfað hefur innan framkvæmdastjórnar N1 frá 2013 og þar af sem framkvæmdastjóri félagsins frá ársbyrjun 2019, hefur verið sagt upp störfum samkvæmt heimildum mbl.is. Ýmir Örn Finnbogason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri N1 í hans stað, og tekur við starfinu á fimmtudaginn, 1. júní nk.
Ýmir Örn Finnbogason kemur frá Deloitte þar sem hann var yfirmaður viðskiptagreiningar frá 2021 og áður sérstakur fjármálaráðgjafi sjávarútvegsfyrirtækja í þjónustu Deloitte á árunum 2010-2012.
Þá lætur Kolbeinn Finnsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs, af störfum en Magnús Kr. Ingason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Festi, tekur nú við sameinuðu sviði fjármála og rekstrar. Magnús gegndi sem kunnugt er tímabundið starfi forstjóra í vetur.
Þá hefur Dagný Engilbertsdóttir verið ráðin forstöðumaður stefnumótunar á skrifstofu forstjóra og tekur til starfa í haust. Dagný ætlar að styðja við stefnumótun móðurfélagsins og þau verkefni sem eru á borði forstjóra að því er fram kemur í tilkynningunni. Dagný kemur frá stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, Örsted, þar sem hún hefur starfað sem verkefnastjóri stefnumótunar. Hún var áður ráðgjafi hjá McKinsey & Company í Kaupmannahöfn á árunum 2019-2021.
„Breytingarnar eru hluti af stefnumörkun félagsins um að létta á móðurfélaginu og efla enn frekar sjálfstæði hvers félags innan Festi. Skerpa fókus til aukins vaxtar og tryggja að fjárfestingum félagsins sé stýrt til réttra tækifæra og aukinnar verðmætasköpunar,“ segir Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, í tilkynningunni.