Öll útistandandi kaup- og sölutilboð á íslenska hlutabréfamarkaðinum voru felld niður fyrir mistök 47 mínútum fyrir lokun á föstudaginn. Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir um mannleg mistök að ræða.
Í samtali við mbl.is segir Magnús að slíkt eigi að sjálfsögðu ekki að gerast, en að mannleg mistök verði.
Fella átti tilboðin niður eftir lokun Kauphallarinnar, vegna innleiðingar á uppfærðum FIX-staðli, en þau voru felld niður of snemma fyrir slysni.
Magnús segir viðskipti blessunarlega hafa verið róleg þegar mistökin áttu sér stað en þau hafi verið leiðrétt eins hratt og auðið var. Það hafi takmarkað áhrifin af atvikinu mjög sem betur fer, en markaðsaðilar hafi náð að setja inn tilboð fyrir lokun. Tæplega 30 aðilar hafi náð að eiga viðskipti fyrir lok dags.
„Þetta er auðvitað ekki það sem við viljum en áhrifin voru blessunarlega takmörkuð,“ segir Magnús og bætir við að þegar hafi verið bætt við viðbótarvarnagla svo atvik sem þetta endurtaki sig ekki.