Fram kom í máli Lilju Bjarkar Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, þegar fasteignamat 2024 var kynnt að bankinn sé einungis með 0,1% vanskil á lánum bankans. Engu að síður hefur bankinn sett upp eilítið dekkri sviðsmynd fyrir komandi misseri í síðasta ársfjórðungsuppgjöri vegna þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum á Íslandi.
„Í síðasta ársfjórðungsuppgjöri gerðum við ráð fyrir meiri erfiðleikum vegna þeirrar háu verðbólgu, háu vaxtastigi og mörgum þáttum sem geta haft áhrif á heimili og fyrirtæki. Við erum ekki farin að sjá bein merki þess efnis. En við erum að búa okkur undir það með því að kynna lausnir og leiðir. Eins að hvetja fólk til að tala við okkur ef það stefnir í vanda,“ segir Lilja í samtali við mbl.is
Þá tilkynnti Lilja um það að Landsbankinn hyggist taka mið af fasteignamati næsta árs við lánveitingar. „Það getur hjálpað fólki að endurfjármagna og lækka sína vexti. Fólk er þegar farið að spyrja um fasteignamatið og ég á von á því að hópur fólks muni annað hvort auka við lán sín eða lækka greiðslubyrði,“ segir Lilja.
Eins og fram hefur komið eru fjölmargir lántakendur með fasta vexti sem eru mun lægri en vextir Seðlabankans. Spurð hvort það hafi ekki áhrif á afkomu bankans segir Lilja það ekki hafa teljandi áhrif.
„Þetta er samspil á milli fjármögnun á útlána. Núna eru fjármögnunarvextir hærri. En við vorum einnig að fjármagna okkur á lægri vöxtum á sínum tíma. Við erum að horfa á það að vaxtamunur okkar sé tiltölulega jafn og að geta rekið okkur á lægri kostnaði. Við erum ekki að horfa á miklar sveiflur í okkar rekstri út af vaxtabreytinum þá vissulega sé áskorun þegar svona miklar vaxtabreytingar eru á skömmum tíma,“ segir Lilja.
Hún segir að helmingur fjármögnunar bankans sé tilkominn vegna innlána. „Svo erum við líka með fjármögnun í sértryggðu skuldabréfum og hún er kostnaðarsöm núna en einnig sækjum við fjármögnun á erlendum mörkuðum og sá kostnaður hefur einnig aukist,“ segir Lilja.