Creditinfo hefur undirritað samstarfssamning við Félag kvenna í atvinnulífinu um stuðning við Jafnvægisvogina. Samningurinn var undirritaður af Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur, framkvæmdastjóra Creditinfo á íslandi og Ástu Dís Óladóttur, formann stjórnar Jafnvægisvogar FKA.
Í tilkynningu kemur fram að Creditinfo mun styðja við Jafnvægisvogina með gögnum til framsetningar í Mælaborði Jafnvægisvogarinnar en mælaborðinu er m.a. ætlað að sýna með skýrum hætti kynjahlutföll íslenskra stjórnenda. Er gögnunum ætlað að styðja við vegferð Jafnvægisvogarinnar um að vera hreyfiafl til að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja í íslensku viðskiptalífi.
„Það er mikill fengur fyrir jafnvægisvogina að fá Creditinfo um borð, þar sem tilgangurinn með voginni er að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar í íslensku viðskiptalífi og gera niðurstöður mælinga sýnilegar. Creditinfo mun koma með gögn inn í endurbætt mælaborð. Með gögnum er ákvarðanataka alltaf auðveldari, og því er það von okkar að þetta muni ýta enn frekar undir að stjórnendur í íslensku viðskiptalífi kjósi að taka þá ákvörðun að auka á jafnrétti innan sinna raða,“ segir Ásta Dís Óladóttir, formaður stjórnar Jafnvægisvogar FKA, í tilkynningunni.
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi, segist ánægð með að geta stutt við Jafnvægisvogina.
„Því miður hafa kynjahlutföll stjórnenda í íslensku atvinnulífi breyst hægt og því skiptir miklu máli að hafa tímanleg og rétt gögn til að virkja atvinnulífið til raunverulegra breytinga. Creditinfo hefur átt í góðu samstarfi við Félag kvenna í atvinnulífinu í gegnum árin og það gleður okkur að geta eflt það samstarf enn frekar í gegnum þetta öfluga mælitæki sem Jafnvægisvogin er,“ segir Hrefna Ösp.