Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines verður með 808 flugferðir í boði milli Íslands og Bandaríkjanna í sumar. Það er fjölgun um 50% frá því í fyrra.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu. Þar segir að mest muni um hina nýju flugleið Delta milli Íslands og Detroit.
„Í sumar verða 95 ferðir til og frá borginni. Að auki hefur ferðum til New York fjölgað um 26%. Delta flýgur einnig til Minneapolis í sumar. […] Sætaframboð Delta hefur aukist um 27% frá því í fyrra og eru tæplega 146 þúsund sæti í boði til áfangastaðanna,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að aukin umsvif Delta í Íslandsflugi endurspegli mikinn áhuga Bandaríkjamanna á ferðalögum hingað, en hátt í þriðji hver erlendi ferðamaður kemur þaðan. Þetta er tólfta árið í röð sem Delta flýgur milli Íslands og Bandaríkjanna.