Hagvöxtur mældist 7% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Er þetta nokkur viðsnúningur frá fjórða ársfjórðungi 2022 þegar hagvöxtur mældist 3,1%, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans.
Fram kemur að utanríkisviðskipti hafi ýtt undir hagvöxt en útflutningur hafi aukist mun meira en innflutningur. Jókst útflutningur um 10,8% miðað við fyrsta ársfjórðung 2022 en innflutningur um 3,7%.
Skýrist vöxtur útflutningsins af aukningu í þjónustuútflutningi sem má rekja til aukinnar útfluttrar ferðaþjónustu.
Vöruinnflutningur dróst saman um 0,2% frá fyrsta fjórðungi seinasta árs en þjónustuinnflutningur jókst um 12,4% frá sama ársfjórðungi. Það er ferðalagaliðurinn sem vegur þyngst en Íslendingar ferðast mun meira fyrsta árfjórðung þessa árs en árið áður, að því er kemur fram í Hagsjá bankans.
Þá jókst einkaneysla um 4,9% milli ára. Aukninguna má líklegast rekja til mikilla launahækkana sem samið var um í upphafi árs og lok síðasta árs. Þá getur verið að einhverjir hafi enn sparnað frá tímum faraldursins til þess að ganga á.
Fjármunamyndun dróst saman um 0,1% milli ára vegna samdráttar í íbúðafjárfestingu. Samdrátturinn ætti að skýrast af hærri vöxtum og skorti á starfsfólki í byggingargeiranum en hann nemur 14,4% milli ára, kemur fram í Hagsjánni.
Vísitala neysluverðs og vísitala launa hafa hækkað álíka mikið síðustu tólf mánuði og stendur kaupmáttur því nokkurn veginn í stað. Vaxtahækkanir ættu að draga úr neyslugetu og er því óvíst hvort einkaneysla muni halda áfram að aukast.