Tryggingarfélagið Vís hefur að undanförnu ráðið tvo nýja forstöðumenn. Annars vegar hefur Rúnar Örn Ágústsson verið ráðinn forstöðumaður stofnstýringar og verðlagningar og hins vegar hefur Hafsteinn Esekíel Hafsteinsson verið ráðinn sem forstöðumaður einstaklingsviðskipta hjá Vís.
Rúnar Örn mun bera ábyrgð á verðlagningu, viðskiptakjörum og afkomu af tryggingum félagsins. Hann ber einnig ábyrgð á áhættumati fyrirtækja og endurnýjun á tryggingum hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Rúnar hóf störf hjá VÍS árið 2019 sem sérfræðingur í vörustjórnun, stofnstýringu og áhættumati.
Áður starfaði hann hjá Mannviti við verkefnastjórn þar sem megináherslan var á kostnaðar-og verkáætlanir sem og tölulegar greiningar. Rúnar er með meistaragráðu (M.Sc.) í byggingarverkfræði frá Danska tækniháskólanum (DTU) og B.Sc.-gráðu í umhverfis-og byggingaverkfræði frá Háskóla Íslands. Það er gaman að geta þess að Rúnar er einnig afreksmaður í íþróttum, þá sérstaklega í þríþraut og hjólreiðum. Hann hefur tvisvar orðið Íslandsmeistari í hjólreiðum og keppti 2019 og 2021 fyrir Ísland á heimsmeistaramótinu í hjólreiðum.
Sem forstöðumaður einstaklingsviðskipta mun Hafsteinn bera ábyrgð á því að efla og samræma sókn á einstaklingsmarkaði um allt land sem og að tryggja þjónustu í einstaklingsviðskiptum.
Áður starfaði hann sem forstöðumaður einstaklingsráðgjafar hjá Sjóvá. Hafsteinn hefur einnig starfað sem flugliði hjá Icelandair og sem rekstrarstjóri hjá Bestseller á Íslandi. Einnig er gaman að geta þess að Hafsteinn er liðtækur á dansgólfinu og hefur unnið til verðlauna í samkvæmisdönsum. Hann hefur tekið þátt sem söngvari og dansari í leiksýningum og má þar á meðal nefna söngleikinn Mary Poppins í uppsetningu Borgarleikhússins hér um árið. Hafsteinn hefur stundað nám í viðskiptafræði við Háskólanum í Reykjavík.
Rúnar Örn og Hafsteinn hafa báðir hafið störf.