Þó svo að glæpum þar sem reiðufé kemur við sögu muni vitaskuld fækka þegar fram líða stundir mun öðrum glæpum fjölga þegar dregið er út notkun reiðufjár.
„Það er fyrirséð að glæpum á borð við rán og peningaþvætti mun fækka en á sama tíma mun netglæpum koma til með að fjölga,“ segir Bengt Nilervall, fyrirtækja- og stefnusérfræðingur hjá Svensk Handel (systursamtök SVÞ í Svíþjóð), í samtali við Morgunblaðið.
Hann heldur erindi í dag á ráðstefnu Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF) og Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ), sem fram fer á Grand Hótel og ber yfirskriftina Notkun reiðufjár í verslun og þjónustu. Í erindi sínu mun Bengt ræða um vegferð Svía að reiðufjárlausu samfélagi.
„Eins og staðan er í dag eru enn 80 prósent verslana sem samþykkja reiðufé en restin gerir það ekki. Í Svíþjóð er verslunum í sjálfsvald sett hvort þær samþykki reiðufé eða ekki ólíkt því sem er í Noregi og Danmörku,“ segir Bengt og bætir við að um átta prósent af öllum viðskiptum í Svíþjóð fara fram með reiðufé í verslunargeiranum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.