Þrír starfsmenn stafrænu auglýsingastofunnar Sahara hafa nú gengið til liðs við stjórnendateymi og eigendahóp fyrirtækisins. Eru það þau Eva Þorsteinsdóttir viðskiptastjóri, Ágúst Örn Ágústsson framleiðslustjóri og Jón Gísli Ström, stafrænn markaðsstjóri.
Fyrirtækið sérhæfir sig í stafrænni markaðssetningu og framleiðslu með skrifstofu bæði hérlendis og í Bandaríkjunum.
Eva er viðskipta- og markaðsfræðingur með sjö ára reynslu hjá fyrirtækinu ýmist sem framleiðandi, framleiðslustjóri og viðskiptastjóri í innlendum og erlendum verkefnum.
Ágúst Örn lærði handritagerð og leikstjórn við Kvikmyndaskóla Íslands og hefur starfað hjá fyrirtækinu í rúm sex ár, fyrst sem tökumaður og klippari en nú sem framleiðslustjóri.
Jón Gísli Ström er viðskiptafræðingur með framhaldsnám frá Bandaríkjunum. Hann var áður markaðsstjóri hjá Ormsson en hefur starfað sem stafrænn markaðsstjóri hjá Sahara síðastliðin þrjú ár.