Þoran Distillery í Hafnarfirði hefur hafið sölu á nýju gini sem ber heitið Marberg Premium Coast Guard Gin, eða Landhelgisgæslugin.
Um er að ræða svokallað „navy strength gin“ sem er flokkur af gini sem einkennist af meira bragði og hærri áfengisprósentu, að því er segir í tilkynningu.
Fram kemur að ginið hafi krydd á borð við cassia börk, kardimommur og lime í forgrunni en bæti við íslenskum áhrifum með birki og beltisþara.
„Við höfum engan sjóher hér á Íslandi, þannig að við ákváðum að búa bara til nýjan flokk af gini og kalla það coast guard strength,” er haft eftir Birgi Má Sigurðssyni, eimingarmeistara Þoran Distillery.
„Það er þó vert að minnast á að við erum bara í því að búa til gin, en ekki að sinna björgunarstarfi á sjó. Það er enn í höndum Landhelgisgæslu Íslands.”