Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands telur viðnámsþrótt fjármálakerfisins á Íslandi vera góðan og hefur því ákveðið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5%.
Í yfirlýsingu frá nefndinni segir að fjármálakerfið hér á landi standi traustum fótum og á sama tíma hafi peningalegt aðhald aukist. Eiginfjár- og lausafjárstaða mikilvægra banka sé jafnframt sterk, vanskil útlána enn lítil og rekstrarafkoma bankanna góð.
Þá hafi nýlegar útgáfur á erlendum skuldabréfamörkuðum dregið úr endurfjármögnunaráhættu þótt vaxtakjörin hafi versnað.
„Skörp hækkun fasteignaverðs og neikvæðir raunvextir hafa skilað hraðri eiginfjármyndun, sérstaklega hjá þeim sem hafa fjármagnað fasteignakaup með nafnvaxtalánum. Setning lánþegaskilyrða, bæði hámark veðsetningar- og greiðslubyrðarhlutfalls, dró úr hættunni á því að hröð eiginfjármyndun skapaði forsendur fyrir óhóflega skuldsetningu. Það sést m.a. af því að skuldahlutfall heimila hefur verið stöðugt í 150% af ráðstöfunartekjum þeirra. Sterk eiginfjárstaða heimila skapar viðnámsþrótt til að mæta versnandi fjármálaskilyrðum.
Verðbólga og skörp hækkun vaxta leiðir þó til þyngri greiðslubyrði þeirra sem hafa tekið lán með breytilegum nafnvöxtum. Þá mun vaxtafesta margra lántaka brátt renna sitt skeið og hækkandi raunvextir þyngja greiðslubyrði.“
Þá brýnir nefndin fyrir lánveitendum að huga tímanlega að þyngri greiðslubyrði lántakenda til þess að fyrirbyggja greiðsluerfiðleika.
„Þar sem þörf krefur ber að skoða að lengja lánstíma, taka upp jafngreiðsluskilmála, setja þak á greidda nafnvexti og líta til ólíkra lánaforma sem bjóða upp á mismunandi greiðslubyrði. Rúm eiginfjárstaða margra lántaka ætti að gefa töluvert svigrúm til að tryggja að greiðslubyrði haldist í takti við viðmið lánþegaskilyrða sem nefndin hefur sett.
Nauðsynlegt er að halda áfram að styrkja net- og rekstraröryggi fjármálafyrirtækja og að auka viðnámsþrótt greiðslumiðlunar hér á landi. Telur nefndin að þau skref sem hafa verið stigin í átt að innlendri, óháðri smágreiðslumiðlun séu jákvæð í því samhengi.“
Þá segir að lokum að fjármálastöðugleikanefnd muni áfram beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika.