„Þetta er ömurlegt mál“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Samsett mynd

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir stöðuna sem upp er komin með líftryggingafélagið Novis insurance company, vera ömurlega og að hann óttist að mikill fjöldi íslenskra viðskiptavina félagsins hafi orðið fyrir tjóni. Í gær var greint frá því að seðlabanki Slóvakíu hefði afturkallað starfsleyfi félagsins, en það hóf starfsemi árið 2014 og hér á landi árið 2018. Þúsundir Íslendinga voru með líftryggingar hjá félaginu.

Greint var frá afturköllun starfsleyfis félagsins á vef Seðlabanka Íslands í gær, en Ásgeir lýsir nokkuð brokkgengum rekstri umboðsaðilans, vátryggingamiðlunarinnar Trygginga og ráðgjafar, á síðustu árum. Segir hann að Seðlabankinn hafi meðal annars tekið upp mál Novis á evrópskum samráðsvettvangi, birt viðvaranir um félagið á heimasíðu Seðlabankans og sektað umboðsaðilann fyrir þá viðskiptahætti sem voru stundaðir.

Fengu stefnur í fangið frá Novis

Ásgeir segir svokallað vegabréfskerfi innan Evrópu fyrir fjármálafyrirtæki sem þetta vera mjög sterkt og því hafi Seðlabankinn í raun lítið getað gert meðan það hafði starfsleyfi í Slóvakíu. „Við höfum reynt að ganga fram eins hart fram og við gátum,“ segir hann. „Á móti höfum við fengið stefnur og hótanir frá þessum aðilum,“ bætir hann við og á þá við íslensku vátryggingamiðlunina.

„En þetta er ömurlegt mál og auðvitað hljótum við í Seðlabankanum að velta fyrir okkur hvað við getum gert. Eigum við bara að sætta okkur við að við fáum kærur á okkur og lögfræðinga frá þessum fyrirtækjum?“ spyr Ásgeir þegar hann lýsir mögulegri aðkomu bankans að málum sem þessum.

Lýsir vandamáli við „one passport-kerfi“

Spurður hvort eitthvað í skoðun Seðlabankans á þessu félagi hafi, í ljósi sekta og nú starfsleyfismissis, hafi komið inn á mögulegt sakhæfi segir Ásgeir að hann hafi engar upplýsingar um slíkt. „En málið í heild lýsir vandamálinu við þetta „one passport-kerfi“ í Evrópu.“

Félagið er með höfuðstöðvar í Slóvakíu og ábyrgð fjármálaeftirlitsins þar en starfar erlendis m.a. á Íslandi. Samkvæmt ársreikningi Novis fyrir árið 2021, sem er síðasti ársreikningur sem það hefur skilað, var félagið með samtals 6.031 samning hér á landi og voru greidd iðgjöld á árinu 14,7 milljónir evra, eða sem nemur um 2,3 milljörðum króna á núverandi gengi evru.

Gæti verið tekið til gjaldþrotaskipta

Spurður út í verstu sviðsmyndina fyrir þessa þúsundir íslensku viðskiptavini segir Ásgeir að Seðlabankinn eigi eftir að skoða málið betur og sjá hvernig það þróast, en að ef allt fari á versta veg verði félagið að þrotabúi sem þurfi að leggja fram kröfu í. Tekur Ásgeir fram að hann þekki ekki hvernig sé í tilvikum sem þessum meðal annars hvað heyri undir forgangskröfur eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK