Gæti umbylt baráttunni gegn peningaþvætti

Norðurljósverkefnið leggur fram lausnir sem gætu umbylt baráttunni við peningaþvætti.
Norðurljósverkefnið leggur fram lausnir sem gætu umbylt baráttunni við peningaþvætti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýsköpunarmiðstöð BIS-samtakanna  (e. Bank of International Settlements Innovation Hub) og íslenska nýsköpunarfyrirtækið Lucinity kynntu nýverið nýjar hugmyndir um hvernig hægt er að umbylta baráttunni gegn peningaþvætti. Verkefnið nefnist Project Aurora eða lauslega þýtt, Norðurljósaverkefnið.

Gæti orðið að veruleika í náinni framtíð

Í verkefninu bjóða þeir upp á nokkrar mismunandi leiðir til að berjast gegn peningaþvætti. Talið er að umfang peningaþvættis samsvari um 2 til 5 billjónum (sem eru milljónir milljóna) bandaríkjadala á ári. Ein af þeim lausnum er lausn sem Óli Páll Geirsson, forstöðumaður gagna hjá Lucinity, telur að geti orðið að veruleika á næstu 5 til 10 árum.

„Tæknin er til, það er bara spurning um að fjármálastofnanir verði tilbúnar til að innleiða hana með tilheyrandi ferlum, samhliða breytingum og tilsvarandi löggjöf,” segir hann.

Óli Páll, forstöðumaður gagna hjá Lucinity, ræddi við okkur
Óli Páll, forstöðumaður gagna hjá Lucinity, ræddi við okkur Ljósmynd/Aðsend

Sú lausn myndi virka þannig að fjármálastofnanir, til dæmis á Íslandi eða á alþjóðavísu, þjálfi sín eigin gervigreindarlíkön til að finna penningaþvættismynstur innan stofnunarinnar og líkönin deili svo upplýsingunum á milli stofnana. Líkönin deila þá upplýsingum um þau mynstur sem þau hafa fundið sín á milli en ekki persónugreinanlegum gögnum, eins og millifærslum.

Þannig gæti fjármálastofnun A tekið eftir sama peningaþvættismynstri og átti sér stað í fjármálastofnun B því líkanið í fjármálastofnun B er búið að taka eftir því mynstri áður og hefur deilt upplýsingunum með líkaninu í fjármálastofnun A.  

Eins og vitringar að deila þekkingu

Þetta er mjög tæknilegt og nýtt og því getur verið erfitt að ná utan um þetta við fyrstu sýn. „Ímyndaðu þér ef vitringar myndu hittast á ársþingi og deila þekkingu sinni hver með öðrum,“ segir Óli og hlær er hann útskýrir hvað líkönin gera.

Oft er erfitt að bera kennsl á peningaþvætti þar sem millifærsla ein og sér vekur ekki mikla athygli. Það eru hins vegar mynstur sem myndast ef vel er að gáð. Peningaþvætti er oft unnið þannig að einstaklingur í fjármálastofnun A millifærir á annan einstakling í fjármálastofnun B. Einstaklingurinn í fjármálastofnun B millifærir svo inn á einstakling í fjármálastofnun C. Og svona getur þetta haldið áfram.

Dæmi um peningaþvætti
Dæmi um peningaþvætti Mynd/Aðsend

Rannsóknin sem Lucinity hefur framkvæmt sýnir fram á að aðferðafræði og hugbúnaður Lucinity geti oft og tíðum greint þessi mynstur á meðan peningaþvætti er í gangi og þannig væri auðveldara að handsama fólk sem stundar þessa iðju.

Project Aurora er stórt og viðamikið verkefni en hér hafa aðeins verið reifaðar nokkrar lausnir og aðferðir til að stemma stigu við peningaþvætti. Hægt er að kynna sér verkefnið nánar hér.

Verkefnið
Verkefnið Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK