Slóvakíska líftryggingafélagið NOVIS, sem hefur starfsemi hér á landi í gegnum vátryggingamiðlunina Tryggingar og ráðgjöf, mótmælir harðlega starfsleyfissviptingu af hálfu slóvakíska seðlabankans.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
Í tilkynningunni segir að ákvörðun seðlabankans sé röng, byggð á ófullnægjandi mati og að lagabókstafnum sé ekki rétt beitt. NOVIS undrast það að ekki hafi verið tekið neitt tillit til þeirra fjölda gagna sem félagið skilaði til seðlabankans.
Ætlar NOVIS í framhaldinu að fá ákvörðun seðlabankans hnekkt fyrir slóvakískum dómstólum. NOVIS segir sig hafa undir höndum gögn sem sanni ósanngjarna málsmeðferð seðlabankans og hefur félagið afhent þau ríkissaksóknara í Slóvakíu.