Fiskeldisfyrirtækið Landeldi lauk sinni fyrstu slátrun í síðustu viku en samhliða eldisstarfsemi vinnur félagið að uppbyggingu landeldisstöðvar og er jafnframt að auka hlutafé sitt verulega til að fjármagna framkvæmdir næstu tveggja ára.
Eggert Þór Kristófersson, framkvæmdastjóri Landeldis, segir að markmiðið sé að ljúka samtals 80 milljóna evra hlutafjáraukningu fyrir lok júní sem samsvarar 12 milljörðum króna. Horft er til þess að núverandi hluthafar Landeldis taki um 5 milljarða af hlutafjáraukningunni. Stærsti hluti þess kemur frá fjárfestingafélaginu Stoðum sem fer nú með um 40% hlut í Landeldi. Félagið hyggst fjárfesta fyrir 25 milljónir evra, eða um fjóra milljarða króna. Um sjö milljarðar króna koma frá nýjum fjárfestum, fjölda einkafjárfesta og lífeyrissjóða. Skv. heimildum Morgunblaðsins fjárfestir Horn 4, sjóður í eigu fjölmargra lífeyrissjóða og stýrt af Landsbréfum, fyrir um þrjá milljarða í Landeldi.
Eggert segir að viðræður við fjárfesta hafi staðið yfir síðan í mars. Hann segir að fjárfestar hreyfi sig hægt í núverandi efnahagsástandi þar sem vextir hafa hækkað um 300 punkta síðan í byrjun árs. Þó hafi ekki komið til greina hjá Landeldi að fresta hlutafjáraukningunni. „Við hefðum örugglega getað gert þetta á betri tíma, en við viljum frekar fylgja okkar áætlunum.“
Eggert segir að hlutaféð sem safnist eigi eftir að duga félaginu fram á mitt ár 2025. Þá sé markmiðið að skrá Landeldi í Kauphöllina. „Þetta þýðir að við erum að fjármagna fyrsta og annan fasa af alls sex. Þegar allir fasar klárast verður framleiðslan orðin um 50 þúsund tonn af laxi á ári. Samhliða Kauphallarskráningunni verða fasar 3-6 fjármagnaðir með almennu hlutafjárútboði. Takmarkið þá er að sækja um 150 milljónir evra til viðbótar eða um 22-23 milljarða.“
Lestu meira um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.