Ásdís Virk Sigtryggsdóttir hefur tekið við sem framkvæmdastjóri reksturs hjá nýsköpunarfyrirtækinu DTE.
Í tilkynningu frá DTE kemur fram að Ásdís hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2021 sem forstöðukona verkefnastofu þar sem hún hefur haft yfirumsjón með innri og ytri verkefnum. Hún hefur einnig stýrt þróun og innleiðingu ferla ásamt fjölmörgum rekstrartengdum verkefnum og komið að fjármögnun fyrirtækisins og stefnumótun. Ásdís situr einnig í stjórn indó Sparisjóðs.
Áður starfaði Ásdís hjá Símanum sem stjórnandi í söludeild Símans, verkefnastjóri í nýsköpunarhröðlum og sem forstöðumaður þjónustu og upplifunar. Hún er með B.A. gráðu í Mannfræði, Meistaragráðu í Hnattvæðingar- og þróunarfræðum frá Maastricht háskóla og Meistaragráðu í Alþjóða stjórnmálahagfræði frá Kassel háskóla í Þýskalandi.
„Á þeim tíma sem Ásdís hefur starfað fyrir fyrirtækið hefur hún verið lykilstarfsmaður sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í að koma DTE á þann stað sem það er í dag. Ásdís hefur komið allstaðar að í rekstri fyrirtækisins með einum eða öðrum hætti síðustu ár, hefur náð góðum árangri með öll þau verkefni sem hún hefur fengið upp í hendurnar og erum við því mjög ánægð með að hún stígi upp með þessum hætti og taki þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem er framundan hjá félaginu.“ segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE, í tilkynningunni.