Augnlyfjaþróunarfélagið Oculis hlýtur þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga (FVH) í ár, að því er fram kemur í tilkynningu frá FVH.
Oculis var stofnað árið 2003 og byggir á uppfinningu þeirra Einars Stefánssonar prófessors emeritus í augnlækningum og Þorsteins Loftssonar prófessors emeritus í lyfjafræði.
Í tilkynningunni kemur fram að Oculis hafi þróað byltingarkennda tækni, OPTIREACH, við meðhöndlun augnsjúkdóma í afturhluta augans með augndropum sem auka leysanleika augnlyfja og gefa lengri virkni. Nú þegar hafi verið sýnt fram á virkni augndropanna fyrir sjónhimnubjúg af völdum sykursýki í klínískum rannsóknum. Þá segir að félagð muni samhliða vinna að þróun líftækniaugndropa ásamt því að vera með taugaverndandi lyf á frumstigi fyrir augun. Oculis hafi þannig náð eftirtektarverðum árangri að mati dómnefndar og sé því vel að því komið að vera þekkingarfyrirtæki ársins 2023.
Að þessu sinni voru verðlaunin veitt fyrir nýsköpun byggða á íslensku hugviti í þágu bættra lífsgæða og lausna á samfélagslegum áskorunum. Það er FVH sem veitir verðlaunin en forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson afhenti þau.
Auk Oculis hlutu Controlant, Kerecis, Nox Medical, Orf Líftækni og Sidekick Health tilnefningar til þekkingarfyrirtækis ársins, en Kerecis var veitt þekkingarviðurkenning ársins.
Kerecis var stofnað árið 2009 og er í dag brautryðjandi á alþjóðlegum markaði með líffræðileg sárameðhöndlunarefni. Fram kemur að fyrirtækið noti aukaafurðir, svo sem þorskroð og fitusýrur, sem falla til við framleiðslu á sjávarafurðum til að mæta læknisfræðilegum áskorunum sem hingað til hafi verið óleystar.
Þá segir að vegferð Kerecis frá stofnun hafi verið aðdáunarverð. Fyrirtækið hafi meðal annars verið valið þekkingarfyrirtæki ársins 2015, auk þess sem það skipaði fyrr á þessu ári sæti á lista Financial Times yfir þau fyrirtæki í Evrópu sem vaxa hraðast. Í mati dómnefndar var meðal annars bent á að tekjur Kerecis á síðasta ári hafi numið um 10% af útflutningsverðmætum íslenska þorskaflans.