Líftæknifyrirtækið Alvotech og Teva Pharmaceuticals Inc., dótturfyrirtæki Teva Pharmaceutical Industries Ltd., hafa náð samningi við Johnson & Johnson sem tryggir Alvotech og Teva rétt til að markaðssetja AVT04, fyrirhugaða líftæknilyfjahliðstæðu Alvotech við Stelara, í Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í tilkynningu Alvotech.
Samkvæmt samningnum getur sala á AVT04 í Bandaríkjunum hafist eigi síðar en 21. febrúar 2025, að fengnu samþykki lyfjayfirvalda, segir í tilkynningunni.
Fram kemur í tilkynningunni að AVT04 sé einstofna mótefni og líftæknilyfjahliðstæða við Stelara. Það binst IL-12 og IL-23 frumuboðefnunum í ónæmiskerfinu, sem eru þættir í meinafræði ákveðinna ónæmismiðlaðra sjúkdóma.
Fram kemur að lyfið sé í þróun og hafi ekki verið samþykkt til notkunar á neinu markaðssvæði. Þá liggi niðurstaða eftirlitsaðila ekki fyrir um notkun lyfsins sem líftæknilyfjahliðstæðu.
Fyrr á þessu ári var mikið fjallað um lyfið AVT02 sem hefur ekki hlotið markaðsleyfi matvæla- og lyfjaeftirlits Bandaríkjanna.
Alvotech er líftæknifyrirtæki sem stofnað er af Róberti Wessman og einblínir á þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim. Alvotech vinnur meðal annars að þróun líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein.