Svissneski bankinn UBS hefur lokið yfirtöku sinni á Credit Suisse bankanum en bankinn gaf út tilkynningu þess efnis í dag. Bankarnir eru þeir tveir stærstu í landinu.
Fyrst um sinn munu fyrirtækin starfa sjálfstætt innan UBS samstæðunnar. Þá hefur sérstök stjórn verið skipuð yfir Credit Suisse undir formennsku varastjórnarformanns UBS.
Frá og með deginum í dag verður ekki lengur hægt að kaupa og selja hluti í Credit Suisse. Hluthafar bankans fá 1 hlut í UBS fyrir hverja 22,48 hluti í fyrrnefnda bankanum.
Sergio Ermotti, bankastjóri UBS segir ekki tímabært að fagna samrunanum. Á næstu mánuðum þurfi að taka margar erfiðar ákvarðanir og þá sérstaklega í starfsmannamálum. Í lok árs 2022 unnu samtals 120.000 manns í bönkunum tveimur. Þar af voru 37.000 staðsettir í Sviss.
Thomas Jordan, stjórnarformaður seðlabanka Sviss, segir samruna bankanna hafa verið einu lausnina á vanda Credit Suisse. Hann segir í samtali við SonntagsZeitung það vera miður að nú sé einungis einn stór banki í stað tveggja smærri en hann segist þess fullviss að ef yfirtakan hefði ekki gengið eftir hefði alþjóðleg fjármálakreppa farið af stað.
Báðir bankarnir voru meðal 30 stærstu kerfislega mikilvægra (e. global systemically important banks) banka í heimi en þetta er í fyrsta skipti sem slíkir bankar sameinast, að sögn Colm Kelleher, stjórnarformanns UBS.
Um miðjan mars óskaði Credit Suisse bankinn eftir aðstoð frá seðlabanka Sviss eftir að stærsti hluthafinn, Saudi National Bank, útilokaði að meira fé yrði lagt í hann. Veitti seðlabankinn í kjölfarið bankanum neyðarlínulán upp á 50 milljarða svissneskra franka eða 7.578 milljörðum íslenskra króna. Nokkrum dögum síðar, 19. mars, tilkynnti UBS um kaup á Credit Suisse.