Pítsakeðjan Domino's mun loka öllum sínum 27 útibúum í Danmörku.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu hjá ástralska fyrirtækinu Domino's Pizza Entreprises, sem á dönsku útibúin.
Ástralska fyrirtækið keypti dönsku Domino's verslanirnar fyrir 2,5 milljónir evra eftir að þær urðu gjaldþrota í mars 2019. Það samsvarar því að kaupverðið sé um 372 milljónir króna.
Segir í tilkynningunni að arðsemi hafi ekki verið næg hjá dönsku Domino's útibúunum og segir Andre Ten Wolde, yfirmaður fyrirtækisins í Evrópu, að fyrrum eigendur hafi varanlega skemmt orðspor Domino's í Danmörku.
Fyrir gjaldþrotið í mars 2019 greindu nokkrir danskir fjölmiðlar frá fjölda sagna um að hreinlæti væri ábótavant á nokkrum af veitingastöðum Domino's.