Costco býður nú upp á áfengissölu í netverslun sinni fyrir einstaklinga. Þetta kemur fram á heimasíðu verslunarinnar.
Kaupendur verða að stofna aðgang á síðunni til þess að panta áfengi. Hingað til hefur Costco selt áfengi til þeirra sem hafa vínveitingaleyfi en nú geta allir einstaklingar, tvítugir eða eldri, verslað á netinu. Bætist þar með Costco í hóp fleiri netverslana sem selja áfengi, en dæmi um slíkar verslanir sem hafa komið fram að undanförnu eru Sante og Nýja vínbúðin.
Kaupendur panta áfengi á netinu en sækja það svo í vöruhús fyrirtækisins í Kauptúni. Kaupendur verða að framvísa persónuskilríkjum til að sýna fram á aldur sinn til að fá vörurnar afhentar, segir í tilkynningunni.
Fram kemur að pantanirnar verði tilbúnar samdægurs hjá þeim en fyrirkomulagið kallast „click and collect“ á ensku eða smella og sækja.
Á vefsíðu Costco kemur fram að yfir 100 vöruliðir séu í boði, meðal annars léttvín, bjór og sterkt áfengi.