Kristján H. Hákonarson hefur verið ráðinn forstöðumaður upplýsingatæknideildar hjá Háskólanum í Reykjavík og hefur störf 1. ágúst, segir í tilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.
Þá kemur fram í tilkynningunni að upplýsingatæknideild HR reki tölvukerfi háskólans, sinni nauðsynlegri hugbúnaðarþróun og stýri notendaþjónustu gagnvart nemendum og starfsfólki á sviði upplýsingatækni. Samtals telur þessi hópur um 5.200 manns.
Kristján hefur starfað sem forstöðumaður hjá Advania og meðal annars borið ábyrgð á innri upplýsingatækni, ferlum, persónuvernd og öryggismálum. Þar áður starfaði hann að gæða- og öryggismálum hjá Eflu, Arion banka og Taugagreiningu, segir í tilkynningunni.
Kristján er menntaður kerfisfræðingur frá háskólanum í Skövde og útskrifaðist núna í vor með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur starfað við gæðamál, upplýsingaöryggi, upplýsingatækni og stjórnunarkerfi í tæplega aldarfjórðung, segir loks í tilkynningunni.