Forsvarsmenn færsluhirðingarfyrirtækja eru gagnrýnir á innihald umræðuskýrslu Seðlabanka Íslands um innlenda óháða smágreiðslulausn sem út kom í febrúar sl. Hafa aðilar átt fundi með bankanum vegna málsins og komið sjónarmiðum á framfæri.
Í skýrslunni er núverandi högun rafrænnar greiðslumiðlunar á Íslandi talin ógna þjóðaröryggi. Traust og örugg greiðslumiðlun sé ein undirstaða virkni hagkerfisins og efnahagslegrar velsældar.
Spurður um málið segist Garðar Stefánsson, forstjóri Rapyd í Evrópu, skilja áherslur um að tryggja verði örugga greiðslumiðlun enda sé rafræn greiðslumiðlun lykillinn að virkni samfélagsins.
„Á Íslandi eru nánast engir peningaseðlar í umferð og greiðslumiðlun er svo gott sem alfarið rafræn. Rapyd og aðrir aðilar í greiðslumiðlun á Íslandi vinna allan sólarhringinn, alla daga ársins, við að tryggja að einstaklingar geti greitt fyrir vörur og þjónustu og söluaðilar tekið við greiðslum.“
Að mati Garðars eru fyrir hendi innviðir á Íslandi sem geta tryggt greiðslumiðlun og þannig mætt áhyggjum Seðlabankans. Áherslur bankans ættu að vera á að nýta slíka innviði að mati Garðars enda fyrirséð að gríðarlegur kostnaður fylgi því að koma upp öðru kerfi.
Viktor Ólason og Bergsveinn Sampsted forsvarsmenn Fjárflæðis segja að ýmislegt í skýrslunni sé beinlínis rangt eða byggt á misskilningi og vanþekkingu. Segja þeir óljóst hvort meginmarkmiðið með innleiðingu lausnarinnar sé aukið þjóðaröryggi eða lækkun kostnaðar.
Um kostnaðarhlutann segir Viktor að fullyrðingar um að áætlaður samfélagskostnaður (innri kostnaður) af notkun greiðslumiðla hér á landi sé um 1,4 prósent af vergri landsframleiðslu séu einfaldlega rangar. Í skýrslunni er kostnaðurinn borinn saman við önnur lönd og hallar verulega á Ísland í þeim samanburði.
Fullyrt er í skýrslunni til samanburðar að kostnaður í Noregi sé mun minni eða 0,8% af vergri þjóðarframleiðslu.
„Okkar útreikningar sýna að kostnaðurinn hér á landi er 0,21% en ekki 1,4% af vergri landsframleiðslu eins og haldið er fram í skýrslunni. Við spurðum Seðlabankann hvort menn væru ekki örugglega að reikna gjöld Visa og Mastercard rétt en svör þeirra voru loðin.“
Lestu ítarlegri umfjöllun í ViðskiptaMogganum í dag.