Brim lýkur 33 milljarða króna endurfjármögnun

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim
Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brim mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjávarútvegsfyrirtækið Brim hefur undirritað samning um 33 milljarða króna sambankalán til að endurfjármagna eldra lán.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að lánveitendur séu þrír alþjóðabankar; alþjóðlegi matvæla- og landbúnaðarbankinn Rabobank, norræni Nordea bankinn og norski DNB bankinn. Lánið er til fimm ára með 25 ára afborgunarferli. Rabobank og Nordea eru með jafnstóran hlut í láninu en DNB er með lægri hlutdeild. Íslandsbanki er umsjónar- og veðgæsluaðili lánsins.

Í lánaskilmálum eru hvatar til aukinnar sjálfbærni, þar sem skilgreindir eru árangursvísar á sviði umhverfis- og samfélagsmála og í samræmi við stefnu og markmið Brims, en félagið hefur birt slíkar upplýsingar samkvæmt GRI staðlinum frá 2017.

„Lánakjörin eru góð og staðfesta fjárhagslegan styrk Brims, ábyrgar fjárfestingar undanfarin ár og góða rekstrarsögu,“ segir í tilkynningunni.

 „Þessi 33 milljarða fjármögnun gerir okkur kleift að endurskipuleggja fjárhaginn og undirbúa tæknivædda framtíð. Við getum nýtt aukinn fjárhagsstyrk til að hraða okkar stefnumálum sem eru að bæta nýtingu veiðiheimilda, auka sjálfbærni, efla markaðs- og sölustarf og auka verðmætasköpun og arðsemi,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK