Kári Freyr Kristinsson
Jón Erling Ragnarsson, framkvæmdastjóri Mekka, segist í samtali við Morgunblaðið telja netverslun með sölu áfengis ekki standast lög. Að hans mati er enginn munur á smásölu í verslun eða netverslun ef varan er hýst á Íslandi. Hann segir Mekka, líkt og önnur fyrirtæki, hika við að opna sambærilegar netverslanir því menn vilji ekki baka sér tjón með því að gera eitthvað sem þeir telja ólöglegt. Aftur á móti séu skiptar skoðanir um þetta mál, segir hann.
Birkir Ívar Guðmundsson, aðstoðarforstjóri Innness, segir Innnes ekki hafa neina skoðun á þessari tegund smásöluverslunar með áfengi. Það sé í höndum yfirvalda að taka ákvörðun um fyrirkomulag á smásölu áfengis og þar með hvað sé löglegt og hvað ekki.
Börkur Árnason, framkvæmdastjóri Globus, vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, segir fyrirtækið endurskoða afstöðu sína í málinu. Afstaða Ölgerðarinnar hefur hingað til verið sú að selja ekki áfengi til netverslana ef vafi léki á lögmæti þess.
Rætt er við nokkra innflytjendur og framleiðendur eftir að tilkynnt var að Costco mun selja áfengi til einstaklinga í gegnum netverslun. Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu um helgina.