Kristín Þorleifsdóttir hefur verið ráðin veitingastjóri N1, segir í tilkynningu frá N1.
Hlutverk veitingastjóra verður að leiða vöruþróun og ákveða úrval veitinga á þjónustustöðvum N1, þar sem félagið hyggst leggja aukna áherslu á ferska og holla valkosti, segir í tilkynningunni.
Kristín er lærður matreiðslumaður ásamt því að hafa lokið viðskiptafræðigráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur starfað sem vöruflokkastjóri hjá Krónunni frá árinu 2015, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Kristín segir reynslu sína úr Krónunni muni nýtast vel í komandi verkefnum. „Ég er vön að fást við fjölbreyttan hóp kröfuharðra viðskiptavina og þekki af eigin reynslu þær áskoranir sem mæta uppteknu fólki á ferðinni. Það er skemmtileg áskorun að takast á við ólíkar þarfir viðskiptavina N1 og taka virkan þátt í þeirri spennandi þróun og umbreytingu sem er að eiga sér stað á orkumarkaði,“ er haft eftir Kristínu í tilkynningunni.
„Við í N1 höfum unnið að því að auka úrval hollra og ferskra veitinga á þjónustustöðvum okkar. Kristín mun leiða þá vinnu og mun bakgrunnur hennar nýtast vel í þessum verkefnum. Við hlökkum öll mikið til samstarfsins,“ er haft eftir Jóni Viðari Stefánssyni, forstöðumanni verslunarsviðs N1.