Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ábendingar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) vegna áskorana í íslensku efnahagslífi, vera á breiðum grunni sem séu gagnlegar fyrir ríkisstjórnina. Ný skýrsla stofnunarinnar um Ísland var í dag kynnt á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu.
„Þetta eru fjölbreyttar ábendingar, sumar tæknilegar aðrar meira stefnumarkandi,“ segir Bjarni og nefnir sem dæmi möguleikann á að innleiða útgjaldareglu.
„Ríkisstjórnin kynnti fyrir skemmstu að við myndum fara fyrir þingið næsta haust og leggja fram samantekt um reynsluna af beitingu fjármálareglna í lögum um opinber fjármál undanfarin ár og hvað er að gerast í öðrum löndum varðandi upptöku á útgjaldareglu – sem er sérstök regla sem setti stjórnvöldum hvers tíma ákveðin mörk hvað varðar þróun útgjalda frá einu ári til þess næsta. Þetta væri stefnubreyting sem við myndum þurfa að lögleiða í lögum um opinber fjármál.“
Þá segir hann ríkisstjórnina einnig þurfa að taka til skoðunar ábendingar OECD er varða virðisaukaskatt og jaðarskatta, en meðal tilmæla í skýrslunni var að afnema skattaundanþágur ferðaþjónustu og færa hana í almenna virðisaukaskattsþrepið og að breikka stofn kolefnisskatts til allra greina sem ekki falla undir ETS-kerfið og láta þá ná til allra gróðurhúsalofttegunda.
Meðal þess sem kom fram í skýrslu OECD um íslenskt efnahagslíf var að þörf væri á auknu aðhaldi í opinberum fjármálum og auknu aðhaldi peningastefnunnar til að vinna gegn þrálátri verðbólgu.
Ríkisstjórnin kynnti aðgerðapakka gegn verðbólgu í byrjun mánaðar. Bjarni segir að um þessar mundir sé verið að útfæra aðhaldsmarkmiðin sem kynnt hafa verið, annars vegar almennu aðhaldsaðgerðirnar og hins vegar aðhaldsaðgerðirnar í stjórnkerfinu.
„Við erum að tala um að tempra vöxt útgjalda með því en útfærslan er auðvitað aðalatriðið. Hvar ætla menn að stíga niður fæti. Hins vegar vorum við með almennt níu milljarða aðhaldsmarkmið fyrir næsta ár sem að sömuleiðis kemur til útfærslu í fjárlagafrumvarpinu og þetta ásamt ráðstöfunum á tekjuhliðinni leiðir til þess að afkoman verður í kringum 35 milljörðum betri en ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða.“
Hann segir þá umræðu halda áfram í haust þegar að fjárlagafrumvarpið og tekjufrumvörpin sem því fylgja eru væntanleg á ný.
„Við erum að horfa til fjölda margra þátta. Við erum að horfa til þess að tempra fjölgun ríkisstarfsmanna í ákveðnum geirum. Við erum að horfa til þess að halda aftur af vexti ferðakostnaðar, leita leiða til þess að endurmeta útgjöld sem hafa verið að vaxa og munum taka það saman í einn heildaaðgerðapakka,“ segir Bjarni um aðhaldsaðgerðirnar.