Umgjörð tekjuskatta verri á Íslandi en í Venesúela

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans.
Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland er í 16. sæti hvað varðar samkeppnishæfni. Þetta eru niðurstöður IMD-háskólans í Sviss en niðurstöður skólans voru kynntar á fundi Viðskiptaráðs í dag, þriðjudag. Úttektin nær til 64 þjóða. 

IMD metur samkeppnishæfni ríkja út frá fjórum meginþáttum: Efnahagslegri frammistöðu, skilvirkni hins opinbera, skilvirkni atvinnulífs og stöðu samfélagslegra innviða.

Ísland er neðar en öll hin Norðurlöndin á listanum, en Danmörk heldur 1. sætinu, á meðan Svíþjóð, Noregur og Finnland falla um nokkur sæti hver.

Írland er svokallaður hástökkvari ársins. Stökk það upp um sjö sæti og er nú í 2. sæti.

Skilvirkni hins opinbera ekki minni í 8 ár

Samkvæmt úttektinni, hefur skilvirkni hins opinbera ekki verið verri síðan 2017, og draga opinber fjármál og skattastefnur mest úr skilvirkni hins opinbera hér á landi, og þar með samkeppnishæfni Íslands í heild sinni.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, sagði í erindi sínu að þörf væri fyrir aðhald við ofþenslu, þegar hann vísaði í  hallarekstur og  útþenslu hins opinbera.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur hjá Viðskiptaráði, nefndi m.a. í erindi sínu að Ísland væri í 61. sæti í þeim hluta úttektarinnar sem liti til innheimtu tekju-og fjármagnstekjuskatts, sem prósentu af vergri landsframleiðslu.

Elísa benti á að umræddur liður væri sá eini í allri úttektinni þar sem að Ísland kæmi verr út heldur en Venesúela. Vert er að taka fram að Venesúela er í neðsta sæti úttektarinnar í heild sinni þegar kemur að samkeppnishæfni.

Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, fór með síðasta erindi viðburðarins. Lilja sagðist sýna því skilning að með ört vaxandi samfélagi hlytu ákveðnir útgjaldaliðir hins opinbera að hækka, en þar með væri þó ekki sagt að öll yfirbygging hins opinbera þyrfti að stækka stjórnlaust. Lilja sagði að henni þætti skrýtið ef að lítil þjóð eins og Ísland, gæti ekki komið saman og ákveðið að draga úr ofþenslu hins opinbera.

Lilja benti á fyrirtæki innan fjármálageirans, og þ.m.t. Landsbankann, sem mögulegar fyrirmyndir þess opinbera í tilhögun rekstrar. Þar vísaði Lilja sérstaklega til rekstrarþróunar sem byggir á minnkandi yfirbyggingu, fækkandi fjölda starfsmanna en þó aukinar þjónustu til viðskiptavina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK