Ármann nýr deildarforseti verkfræðideildar

Ármann Gylfason hefur verið skipaður deildarforseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík.
Ármann Gylfason hefur verið skipaður deildarforseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Ljósmynd/HR

Dr. Ármann Gylfason hefur verið skipaður deildarforseti verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Ármann lauk doktorsprófi í verkfræði frá Cornell University árið 2006, MSc-gráðu frá sama háskóla 2003 og BSc-gráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands árið 2000. Framhalds- og doktorsnám hans var á sviði flugvélaverkfræði, en grunnnámið í véla- og iðnaðarverkfræði.

Ármann hóf störf við Háskólann í Reykjavík árið 2006 sem lektor og varð hann seinna meir dósent. Sérsvið hans er í varma- og straumfræði með áherslu á iðustreymi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum.

Ármann hefur birt fjölda vísindagreina og ráðstefnugreina á alþjóðlegum vettvangi og haldið erindi á ráðstefnum og vinnustofum hérlendis og erlendis. Rannsóknir hans byggja á tilraunum í vindgöngum og tölulegum hermunum sem hafa það markmið að auka skilning okkar á mikilvægum og hagnýtum flæðum sem finna má í náttúrunni og ýmsum verkfræðilegum ferlum. Ármann hlaut nýlega styrki frá Rannsóknasjóði til þróunar á nýrri háhraða myndtækni til straumfræðirannsókna, og rannsókna á rekstri vindhverfla við erfið veðurfarsskilyrði.

Ármann rekur rannsóknarstofu á sviði straumfræði og er þar í virku samstarfi við vísindafólk á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum, meðal annars hjá háskólunum í Lyon og Portland.

Í tilkynningunni er haft eftir Ármanni að hann muni hlúa að kennslu og rannsóknarstarfi deildarinnar. „Verkfræðideild Háskólans í Reykjavík býður upp á fjölbreytt og spennandi nám í verkfræði. Deildin býr yfir öflugu vísindafólki sem brennur fyrir kennslu- og rannsóknastarfi. Deildin er leiðandi í vísindastarfi og þverfaglegu rannsóknarstarfi, sem gefur nemendum á öllum stigum færi á að byggja upp þekkingu á fjölbreytilegum viðfangsefnum. Mitt verkefni sem deildarforseti er að hlúa að kennslu og rannsóknastarfi deildarinnar, halda áfram að byggja upp innviði sem styðja sem best við starf deildarinnar og samtvinna rannsóknir og kennslu með því markmiði að nemendur séu sem best búnir til að takast á við framtíðina,“ er haft eftir honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK