Rammagerðin hefur leigt húsnæðið á Laugavegi 31, sem gengið hefur undir nafninu Kirkjuhúsið, undir nýja flaggskipsverslun fyrirtækisins. Verslunin er um 600 m2 að stærð og bætast við aðrar verslanir Rammagerðarinnar sem fyrir eru í Reykjavík, á Skólavörðustíg og í Hörpu. Auk þess rekur Rammagerðin tvær verslanir á Keflavíkurflugvelli og eina á Hvolsvelli.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að Rammagerðin hefur starfrækt verslanir með íslenskt handverk, og í seinni tíð íslenska hönnun, frá árinu 1940.
Húsnæðið að Laugavegi 31 var teiknað af Einari Erlendssyni húsasmið og reist af kaupmanninum Marteini Einarssyni sem seldi þar vefnaðar- og matvöru. Kristnisjóður keypti húsið árið 1994. Núverandi eigendur eignuðust húsið haustið 2020 og hafa gagngerar endurbætur staðið yfir síðan, þar sem húsið hefur verið fært til upprunalegs útlits með nútímaþarfir í huga.
Fram kemur í tilkynningunni að nýja verslunin að Laugavegi 31 mun auka enn frekar möguleika Rammagerðarinnar til áframhaldandi samstarfs við hönnuði, en í verslunum Rammagerðarinnar er framboð af vörum sem unnar hafa verið í samstarfi við hóp íslenskra hönnuða. Auk þess verður ný verslun heimili þekktra íslenskra vörumerkja í bland við minni framleiðendur.
Hönnunin á nýrri verslun Rammagerðarinnar að Laugavegi 31 verður í höndum Basalt arkitekta sem hönnuðu jafnframt nýja verslun Rammagerðarinnar í Hörpu. Áætlað er að verslunin opni í haust.
Eigendur Rammagerðarinnar eru hjónin Bjarney Harðardóttir og Helgi Rúnar Óskarsson, sem jafnframt eru eigendur Sjóklæðagerðarinnar (66°Norður).